149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Áður en ég hef ræðu mína vil ég segja að ég gerði þau mistök að halda að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hefði fært sig neðar á mælendaskrá, enda er hann búinn að vera inni á mælendaskrá nánast í allan dag og fram á kvöld. Ef ég hefði vitað að hv. þingmaður hefði tekið sig af mælendaskrá hefði ég auðvitað ekki, í góðmennsku minni, boðið honum mitt pláss. Þannig er nú það. Ég hlakka til að eiga orðastað við hv. þingmann. Ég vona að hann komi í andsvör við mig núna í þessari ræðu, sem er að vísu bara 10 mínútur þannig að ég þarf að fara að haska mér og byrja á henni.

Herra forseti. Þjóðaratkvæðagreiðsla um efnisatriði nýrrar stjórnarskrár frá því í október árið 2012 leiddi í ljós afgerandi stuðning þjóðarinnar við ákvæði um ævarandi þjóðareign á náttúruauðlindum, að nýtingarrétti yrði úthlutað til ákveðins tíma gegn fullu gjaldi og með gagnsæjum og hlutlægum hætti. Fylgja þarf þeirri niðurstöðu eftir og innleiða heildstæða auðlindastefnu á forsendum sjálfbærrar þróunar þannig að þjóðin njóti arðsins af auðlindum sínum. Þess vegna vil ég taka heils hugar undir með þeim þingmönnum sem hafa talað um það hér í kvöld að ekki skuli horfa bara á veiðigjöld heldur á auðlindagjöld í heild sinni.

Fyrr á þessu ári sendi ég fyrirspurn til fjármálaráðherra og spurði hann hvernig það yrði ef við myndum rukka orkufyrirtækin um gjöld með sama hætti og þeir gera í Noregi, hvað við fengjum þá í ríkissjóð. Svarið var að við fengjum 7 milljarða kr. Auðvitað er það þannig að við fáum arð af Landsvirkjun en ekki auðlindagjald af einkareknum virkjunum. Við ættum við að horfa til Noregs hvað þetta varðar. Það sem þeir gera í Noregi líka, þegar kemur að orkufyrirtækjunum, er að láta gjöldin renna til sveitarfélaganna en taka einnig sérstaklega tillit til þeirra sveitarfélaga þar sem eru verndaðir nýtingarkostir. Mér finnst þetta góð hugmynd og mér finnst að við ættum að líta til Noregs þegar við viljum bæta okkar stefnu í auðlindamálum.

Herra forseti. Þegar við hönnum mikilvæg kerfi sem ætlað er að lifa til mjög langs tíma, svo sem við stjórn fiskveiða, er mjög mikilvægt að gætt sé að öllum þremur stoðum sjálfbærrar þróunar, þeirrar hagrænu, þeirrar umhverfislegu og þeirrar samfélagslegu. Það verður aldrei sátt um fiskveiðistjórn, hvorki gjaldtöku né stjórn á þessu kerfi, verðmætakerfi okkar sem skiptir svo miklu máli, nema við tökum tillit til allra þessara þátta. Það hefur komið svo vel í ljós í umræðunni í kvöld að það er hreint ekki sátt um samfélagslegu hliðina. Við verðum að finna leið út úr því.

Við upptöku kvótakerfisins á 9. áratugnum var áherslan á umhverfisstoðina, enda voru fiskstofnarnir við Íslandsstrendur ofveiddir. Áratug síðan var kerfið bætt með heimild til framsals aflaheimilda svo hagræna stoð kerfisins yrði styrkt. Það er óhætt að fullyrða að hvort tveggja hafi haft erfiðleika í för með sér fyrir sjávarbyggðir og veikt þriðju stoðina, þ.e. samfélagslegu sáttina. Tillögur um útboð veiðiheimilda og fjármögnun uppbyggingar á landsbyggðinni er ætlað að skjóta þriðju stoðinni undir það annars ágæta kerfi sem við höfum þróað og erum enn að þróa utan um þá mikilvægu atvinnugrein sem sjávarútvegurinn er.

Það má útfæra útboð á aflaheimildum á alls konar vegu. Mér fyndist að í þessari umræðu ættum við að skoða sérstaklega umsagnir sem fræðimenn sendu þegar við vorum að fjalla um makrílfrumvarpið á sínum tíma. Það var bandarískur fræðimaður og síðan norskur, sérfræðingar í útboðum, sem bentu okkur á leiðir sem hægt væri að fara til að gera útboðið þannig að tekið væri tillit til byggða, tekið væri tillit til sérstöðu smærri útgerða, svo dæmi séu tekin. Ef við færum út í útboð á aflaheimildum myndi ég kjósa að færustu sérfræðingar, innlendir og erlendir, yrðu fengnir til að hanna útboðið með hliðsjón af reynslu af öðrum útboðum, svo sem í Færeyjum. Ein sviðsmyndin gæti verið svona: Heimildir væru boðnar út í þremur tímaflokkum, til eins árs, til þriggja ára og til átta ára. Það er færeyska leiðin. Eða þá að við getum boðið út 5% á hverju ári fyrir sig og að kvótinn endurnýist þannig á 20 árum. Við getum verið með hluta af útboðinu í opinni sölu fyrir allra augum á netinu og annan hluta með lokuðu útboði. Við gætum líka farið út í það að sjálfstætt starfandi fiskvinnslum yrði gert heimilt að taka þátt í útboði og framselja það til útgerða innan ákveðins tímaramma til að tryggja sér hráefni. Það eru alls konar útfærslur sem hægt er að fara með útboð og það er auðvitað gert. Þegar við notum útboð í alls konar viðskiptum er það útfært með ýmsum hætti.

Ef rétt er á málum haldið leiðréttir tilboðsleiðin óréttlætið sem felst í því að ávinningur af hagræðingu innan útgerðarinnar renni í vasa fárra en íbúar sjávarbyggða beri kostnaðinn. Um leið auðveldar útboð nýliðun í greininni.

Fiskmarkaðir á Íslandi eru góðar fyrirmyndir þar sem markaðslausnir ráða. Þar kaupa fiskvinnslur án kvóta fisk daglega á tilboðsverði. Þessi fyrirtæki hafa enga aðra rekstrartryggingu en þá að tilboðsmarkaðurinn verði starfandi á morgun. Það er aldrei deilt um fiskverð á fiskmarkaði eftir á, eftir að viðskiptin hafa átt sér stað, enda hafa kaupandi og seljandi komið sér saman um það. Allar fiskvinnslur landsins hafa jafnan aðgang að fiskmörkuðum og nýliðun í fiskvinnslu er því miklu auðveldari en í útgerð.

Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu veiðigjaldi í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir hafa þurft að greiða stærri útgerðum undanfarið um 175 kr. fyrir kílóið af þorski í veiðigjald, á meðan ríkið innheimtir aðeins 22 kr. í ár og stjórnarmeirihlutinn vill að sú tala fari niður í 13,8 kr. á árinu 2019.

Það fer nefnilega fram útboð á aflaheimildum á Íslandi. Því er bara ekki stýrt af opinberum aðilum og ávinningurinn rennur ekki í ríkissjóð heldur í vasa útgerðarmanna sem leigja frá sér kvóta sem ríkið hefur úthlutað þeim.

Niðurstöður Hafrannsóknastofnunar úr stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum sýna að árgangar 2014 og 2015 sem koma í veiðina 2018, eða í ár og á næsta ári, eru við langtímameðaltal og því má búast við að viðmiðunarstofninn stækki. Og hvað ætlum við þá að gera? Ætlum við eitt árið enn að rétta viðbótarkvótann til þeirra sem fyrir eru með kvóta? Á undanförnum 10 árum hefur þorskkvótinn tvöfaldast, farið úr 130.000 tonnum í tæp 260.000 tonn. Við höfum tekið alla viðbótina og dreift henni á þá sem fyrir eru á fleti, fyrir utan rúmlega 5% sem fer í byggðakvóta.

Hvaða réttlæti er í þessu? Væri ekki ráð í það minnsta að taka það skref að bjóða út viðbótaraflann og -kvótann og gera þannig að minnsta kosti nýliðun mögulega, ef við horfum til þessara þúsunda tonna? 130.000 tonn af þorski hafa einmitt komið inn með þessum (Forseti hringir.) hætti og við höfum rétt þessa viðbót kvótahöfum, ég leyfi mér að segja fyrir slikk.