149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég rak augun í fyrirsögn í Morgunblaðinu í morgun sem er ótrúlega fordómafull: „Geðveikum og öryrkjum fjölgar“.

Við erum að tala um veikt fólk. Þeir sem eru með geðræn vandamál eru líka öryrkjar.

Aðalatriðið í þessu er það sem greinin fjallar um. 200 einstaklingar eru inni á hjúkrunarheimilum sem er búið að breyta í félagslegar íbúðir. Fram kemur að þarna sé um að ræða fólk með geðræn vandamál og öryrkja, eins og segir í greininni.

Það hlýtur að segja sig sjálft að það er eitthvað alvarlegt að í heilbrigðiskerfinu okkar ef þetta er staðreyndin. Það er ekki forsvaranlegt að segja við þá sem fara með umönnun aldraðra að þeir eigi að líka hafa þekkingu til að geta tekið að sér umönnun þeirra sem eru með geðræn vandamál. Það gengur ekki upp. Það er eitthvað að í heilbrigðiskerfinu okkar og þetta er kannski næsta skrefið í að eyðileggja geðræn teymi eins og Hugarafl o.fl. Þetta er ekki ásættanlegt.

Svo hljótum við líka að spyrja, ef við erum að fara að setja þetta sem merki: Hvernig stendur á því að 92 ára gamall einstaklingur er settur inn á klósett á spítala? Þar á hún að borða matinn, við hliðina á klósettinu.

Við hljótum að spyrja ykkur sem eruð í þessari ríkisstjórn: Hvert stefnið þið? Er þetta stefnan? Er þetta boðlegt? (Forseti hringir.) Ég segi nei.