149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Píratar, og sér í lagi þingflokkur Pírata, þekkja mætavel hvað það þýðir þegar reglur skortir eða reglur njóta ekki trúverðugleika. Ef fólk skynjar ekki raunhæfan farveg til að fá úr ágreiningsatriðum skorið eða ef ferlarnir njóta ekki trúverðugleika er hætt við að fólk reyni að útkljá ágreining með því sem ég ætla að kalla félagslegum aðferðum. Slíkar aðferðir við að hafa áhrif á ábyrgð og umboð annarra með baktjaldaleiðum frekar en með skýrum ferlum snúast fljótt upp í eineltishegðun og yfir það er enginn hafinn, hvorki Píratar né aðrir.

Þetta þekkja Píratar, ekki bara vegna þess að við höfum reynt að finna upp hin ýmsu hjól, sum með góðu og önnur ekki með svo góðu, heldur vegna þess að þokkalega stór hluti Pírata var fórnarlömb eineltis í æsku og þekkir einelti af ýmsum toga á eigin skinni og skilur málefnið mætavel. Þess vegna eiga Píratar ekki í neinum vandræðum með að viðurkenna brotalamirnar þegar þær koma í ljós. Þess vegna bregðumst við með því að ræða hlutina í gegn og finna lausnir. Reglur og ferlar duga ekki til ein og sér. Það þarf oft að breyta menningu og það er gert m.a. með umræðu en líka með trúverðugum reglum og ferlum sem farið er eftir frekar en að fara baktjaldaleiðirnar. En slíkir ferlar, sem eru hugsaðir til að útkljá ágreiningsmál, þurfa að njóta trúverðugleika.

Þess vegna er mikil kaldhæðni fólgin í orðum sem voru látin falla í gær í umræðunni um fundarstjórn forseta. Þá líkti einn hv. þingmaður umkvörtunum Pírata, vegna málsmeðferðar forsætisnefndar varðandi aksturskostnað, við einelti. Annar stakk upp á því að Píratar þyrftu að læra að fylgja reglum. Kaldhæðnin felst í því að það eru Píratar í aksturskostnaðarmálinu sem hafa frá upphafi kallað eftir því að reglunum sé fylgt og því einu að borin sé ábyrgð á því þegar út af er farið, að ferlið sem er notað til þess að útkljá slíkan ágreining sé trúverðugt.

Það er ekki einelti, virðulegi forseti. Þvert á móti er það lausnin.