149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni varðandi tillögur þeirra, hvort lagt hafi verið mat á hvað þessi endurúthlutun þýddi fyrir litlar og meðalstórar útgerðir. Hvað þýðir þessi endurúthlutun í raun?

Það var rætt mjög inni í nefndinni varðandi þessar breytingar að vinnslan væri tekin út úr dæminu og embætti ríkisskattstjóra er falið að hafa eftirlit með því að það sé ekki óeðlileg milliverðlagning í samþættum rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Það kom skýrt fram hjá embættinu að það teldi sig hafa þau tæki og aðgang að þeim upplýsingum hjá viðkomandi fyrirtækjum til að koma í veg fyrir þetta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann treysti ekki þeim orðum sem komu fram hjá embætti ríkisskattstjóra um að hafa eftirlit með þessu hjá viðkomandi fyrirtækjum í skattauppgjöri þeirra þar sem sérstakt blað er lagt fram til þess að vinna að afkomutengingu sérstakra tegunda og úr upplýsingum frá Fiskistofu um aflaverðmæti hverrar tegundar fyrir sig.

Treystir ekki hv. þingmaður þessum stofnunum, Fiskistofu, embætti ríkisskattstjóra og Verðlagsstofu skiptaverðs til að fylgjast með réttu verði til sjómanna, til að hafa eftirlit með þessum þáttum sem þurfa að vera í lagi? Sem þetta frumvarp í raun og veru byggist á með afkomutengingu veiðigjalda, sem geta, nota bene, hækkað eða lækkað eftir afkomu í greininni. Hefur hv. þingmaður ekki kynnt sér skýrslu Deloitte sem sýnir fram á mjög mikinn samdrátt í hagnaði undanfarin tvö ár? Hún sýndi að ef það væri óbreytt fyrirkomulag veiðigjalda yrðu þau árið 2020 2 milljarðar (Forseti hringir.) og 12,5 á næsta ári. Það væri gott að fá viðbrögð hv. þingmanns við þessum staðreyndum.