149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:23]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa að ég óska þess að hv. þingmaður hefði bara komið í andsvar við mig því að mér fannst þessi ræða vera mjög langt andsvar við ræðu mína áðan. (PállM: Ég met þig svo mikils.)

Það eru nokkrir þættir sem ég myndi gjarnan vilja ræða aðeins nánar. Hv. þingmaður sagði að ég teldi núverandi fyrirkomulag gallalaust. Það voru aldrei mín orð. Það er alveg ljóst hvaða stefnu minn flokkur, Viðreisn, hefur haft í þessum málum. Við trúum einfaldlega að það væri hægt að skipa þessum málum mun betur með markaðsfyrirkomulagi á veiðiheimildum og þar með veiðigjöldunum sem slíkum. Það væri besta rauntímaverðlagningin út frá afkomu greinarinnar á hverjum tíma sem völ væri á. Það er í raun og veru sú verðlagningaraðferðafræði sem notast er við í frjálsu framsali með veiðiheimildir, sem ég tel vera náskylt í þessum efnum.

Það sem ég hefði hins vegar áhuga á er að heyra skoðanir hv. þingmanns á og þá kannski fyrir það fyrsta: Af hverju óttast þingmaðurinn og flokkur hans svo mjög tímabundnar veiðiheimildir? Með hvaða rökum er hægt að halda því fram að tímabundnar veiðiheimildir til 20–25 ára kollvarpi fiskveiðistjórnarkerfinu?

Hér hafa okkar færustu auðlindahagfræðingar ítrekað komið fram með tillögur af þessum toga, einmitt með það að leiðarljósi að skapa meiri fyrirsjáanleika og festu fyrir atvinnugreinina sjálfa til lengri tíma litið. Það er jú óumdeilt í sjálfu sér að núverandi fyrirkomulag mætti í raun og veru hæglega afnema eða gerbreyta í þessum sal. Það eru fáar atvinnugreinar sem búa við svo góðan fyrirsjáanleika eins og hér er verið að leggja til, að hafa fyrirsjáanleika varðandi veiðiheimildir sínar til 20 ára. (Forseti hringir.) Hvað er það sem hv. þingmaður óttast svo mjög í því fyrirkomulagi?