149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:32]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það skal játast að ég hef ekki fastmótaðar hugmyndir í þessu. Satt best að segja, svo að ég tali nú mitt hjarta hreint, þykist ég hafa fengið alls kyns hugmyndir sem hugsanlega dygðu í þessu samhengi en við nánari umhugsun og við að prófa þær á öðrum hafa margar þeirra fallið um sjálfar sig.

Þetta var reynt, eins og menn þekkja, með þennan forkaupsrétt. Það er svo hæstaréttarúrskurður fyrir því að þessi forkaupsréttur bara virkar ekki. Það er algerlega vafalaust og þarf ekkert að reyna frekar á það. Það er búið að fara með þetta í gegnum allt dómskerfið og forkaupsrétturinn, sem kveðið er á um í lögum, gildir ekki. Fyrir því liggur þá bara úrskurður Hæstaréttar.

Þessi sírópssamlíking sem ég tók er náttúrlega sama málið. Forkaupsrétturinn átti að virka eins og síróp í kerfið, hægt væri á ferlinu, byggðarlögum væri gefinn kostur á því. Auðvitað eru alls konar atriði sem torvelda þá framkvæmd, eins og t.d. það ef selja ætti verulega miklar aflaheimildir, stór útgerðarfyrirtæki, hefur ekkert bæjarfélag bolmagn til að kaupa slíkt fyrirtæki. Það myndi þá gefa mönnum tóm í heimabyggð til að dvelja aðeins við málið, gefa hugsanlega öðrum í því byggðarlagi sem í hlut ætti tækifæri til að koma að því og sjá hvort hægt væri að koma á samstarfi við aðra aðila annars staðar í því skyni að halda aflaheimildunum eða nýtinguna á þeim inni í byggðarlaginu.

Ég hef ekki á þessu patentlausn. En ég held að það sé a.m.k. einnar messu virði að fara yfir það hvort ekki sé hægt að finna hana.