149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:39]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Herra forseti. Létta leiðin ljúfa fyrir mig væri að svara því til að ég veit það ekki. Ég þekki ekki söguna á bak við þessi útskipti á orðum en get þó ekki ímyndað mér að þarna liggi eitthvert slæmt samsæri eða vondur hugur að baki.

Mér sjálfum finnst í fljótu bragði — en ég áttaði mig ekki á því fyrr en hv. þm. Oddný Harðardóttir sagði mér frá þessu núna að þessi breyting þarna hefðu átt sér stað — eðlilegra orðalag í þessu samhengi að tala um afkomu en arð. Arður er aðeins þrengra hugtak og fer að sýsla með arðgreiðslur til hluthafa og annað slíkt. Það er ekki hlutdeild í því sem veiðigjaldið á að skila. Það á að skila hlutdeild í afkomu fyrirtækjanna, ekki í því hvað stjórnir fyrirtækjanna á hverjum tíma kynnu að ákveða varðandi arðgreiðslur eða eitthvað slíkt.

Ég veit ekki af hverju þessu var skipt út. En mér finnst þetta nú betra orðalag.