149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:44]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um veiðigjald. Hér er búin að vera ansi fróðleg umræða um þetta mikilvæga mál. Ég vil byrja á að þakka ráðherranum og starfsmönnum ráðuneytisins fyrir samstarfið við okkur í atvinnuveganefnd varðandi frumvarpið. Ég vil einnig þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, fyrir gott samstarf og góða stjórn á nefndinni sem og öllum nefndarmönnum, málið er búið að vera tvo mánuði í nefndinni og samstarfið hefur verið afar gott. Það hefur hvergi brotið neitt á því. Því hafa komið mér á óvart umræður um að við höfum ekki staðið saman og það hafi verið beitt einhverjum þvingunum í starfinu. Það kom mér afar mikið á óvart og ekki síður hvað var mikið gert úr því. Ég upplifi þetta alls ekki þannig. Það er reyndar oftar þannig að þegar nefndarstarfinu lýkur og þingmenn koma út og horfa í sjónvarpsvélarnar breytist andrúmsloftið og myndin sem dregin er upp er ekki alltaf sú raunsanna sem við þekkjum úr nefndarstarfinu, sem er náttúrlega lykillinn í starfi okkar í þinginu.

Ég vil segja það strax í upphafi ræðu, kannski ekkert of langri, að eins og staðan er á útgerð í landinu finnst mér veiðigjöldin of há. Það er stóri sannleikurinn í þessu máli að mínu viti. Þau taka of stóran hluta af hagnaði fyrirtækjanna og stöðva framþróun þeirra. Sú mikla nýsköpun og örvun í atvinnulífinu sem er í skjóli öflugs sjávarútvegs mun líða fyrir þetta að lokum. Veiðigjaldið er landsbyggðarskattur, kemur verst niður á hinum dreifðu byggðum landsins eins og við í atvinnuveganefnd fengum að kynnast og heyra þegar fulltrúar landssamtaka komu til okkar og fóru yfir stöðuna og eins þegar við lásum skýrslu sem sjávarútvegsfélög í Grindavík, á Suðurlandi og Austurlandi létu gera og reyndar líka skýrslu sem félög á Norður- og Vesturlandi létu gera og ég ætla að vitna í aðeins á eftir.

Stóra myndin fyrir mér er hin gríðarlega fækkun útgerða. Smábátaútgerðum hefur fækkað um fleiri hundruð, um 60% frá árinu 2006 til 2018, og aflaheimildir krókabáta færst að 83% hluta yfir á örfáar útgerðir. Það sama er að gerast í smábátaflokknum og milli- og stærri útgerðinni, aflaheimildir eru að færast á færri hendur. Ég held að það hljóti að vera áhyggjuefni fyrir okkur sem munum þá tíma þegar kvótakerfið var sett á og hér var rekin útgerð um allt land með fjölda báta við mjög erfiðar aðstæður. Markmið kvótakerfisins var að fækka bátum, auka hagkvæmnina og efla sjávarútveginn og það tókst. Ég hef velt því fyrir mér mjög lengi hvort sú hagræðing sé kannski of langt gengin og það gerist kannski vegna starfa okkar og ákvarðana á Alþingi. Með því að leggja of miklar álögur á útgerðina og veiðarnar stuðlum við sjálf að því, við sem tölum gegn því að útgerðum fækki. Okkar verk hafa stuðlað að því.

Ég heyri það í umræðunni að þegar við sem viljum fara rólegar í þetta og reyna að færa gjaldið nær í tíma kemur minni hlutinn og segir að ekki sé nógu vel að verki staðið, að það sé verið að gefa útgerðinni milljarða á sama tíma og við séum að taka af öryrkjum og eldri borgurum. Ég ferðast nú nokkuð mikið um mitt kjördæmi eins og alþjóð veit, kem víða við og hitti marga og get sagt ykkur það, kæru vinir hér í þessum sal, að þessi umræða og hvernig hún er fram sett, að það megi aldrei tala um neinn skapaðan hlut úr þessum stól öðruvísi en að þá sé verið að sneiða að þessum hópum sem við öll viljum taka utan um og vernda, er farin að skaða þessa hópa. Ég heyri að fólk er orðið þreytt á þessari umræðu, (Gripið fram í: Já.) að vera sífellt að bera kjör aldraðra og öryrkja saman við ákvarðanir á öðrum sviðum, eins og í þessu tilfelli veiðigjöld. Veiðigjöld eru bara sérstök ákvörðun, algjörlega án tillits til þess hvernig afkoman er að öðru leyti. Þau hljóta að eiga að taka mið af afkomu útvegsins. Við getum ekki gengið lengra en það. Ég held að það hljóti að vera það mikilvægasta í þessu.

Mig langar líka að minnast á að horfurnar eru heldur ekki bjartar, við þurfum að líta til þess. Reyndar gengur vel við bolfiskinn að flestu leyti en það eru svartar fréttir af makríl, kolmunna og loðnu og svo auðvitað af humrinum sem ekki er búið að gefa út kvóta fyrir frekar en loðnu. Það er 76% minna af makríl í vesturhafinu en var á þarsíðasta ári. Kolmunninn á erfitt uppdráttar og loðnan finnst ekki. Það er reyndar ekki nýtt en það er útlit fyrir að allt að 40–50% lækkun á kvóta á makríl á næsta fiskveiðiári. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir okkur? Jú, það hefur verulega miklar afleiðingar. Það mun líka hafa miklar afleiðingar á afkomu sjávarútvegsfyrirtækjanna, sérstaklega uppsjávarfyrirtækjanna sem hafa byggt sig upp til þess að taka þann verðmæta fisk.

Við þurfum kannski líka að átta okkur á því að þegar við nýtum náttúruauðlindir landsins er ekki alveg á vísan að róa, það liggur klárlega fyrir.

Ég ætla aðeins að koma inn á þær heimsóknir sem við fengum í atvinnuveganefnd og þau skilaboð sem þaðan koma til okkar. Ég heyri í umræðunni mjög mikið talað um að það sé ekkert mál að hækka veiðigjöldin núna vegna þess að olían sé að lækka og gengið sé að lækka og þetta muni skila sér strax til útgerðarinnar. Já, það mun gera það og það mun þá líka skila sér í veiðigjaldinu árið 2020, eins og þessi lög eru sett upp. Þannig verður það. Ef gjaldið væri fast gjald greitt í rauntíma myndi það skila sér strax. Eins og ég þreytist ekki á að segja: Ef veiðigjald væri tekið líkt og aflagjald hafna, bara við löndun, yrði gjaldið lifandi og myndi strax breytast þegar olíuverð lækkar og þegar gengið lækkar og það verður meira til skiptanna. En þetta kerfi býður ekki upp á að það gerist strax. Það er alltaf einhver ófyrirsjáanleiki í þessu.

Ég hef líka sagt að það sé ósanngjarnt að aðeins ein grein greiði auðlindagjöld, veiðigjald í þessu tilfelli. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum það föstum tökum. Ég hef verið að skoða hvernig við getum reiknað auðlindagjald á allar greinar sem nýta náttúruna, fiskinn í hafinu, hitann í jörðinni, vötnin, norðurljósin, og selja þetta allt saman dýrum dómum, sem betur fer. Það væri hægt að gera með því að setja einfaldan lágan skatt á veltu fyrirtækjanna. Í Noregi er t.d. tekið eftirlitsgjald af útgerðinni upp á 1,35% sem er nokkurs konar veiðigjald þar en þar er líka ríkisstyrktur sjávarútvegur. Á Íslandi er sambærilegt gjald 1,65 þannig að það er töluvert hærra.

Virðulegur forseti. Þegar fulltrúar Fjórðungssambands Vestfirðinga heimsóttu okkur fengum við þær upplýsingar að þar hefðu veiðigjöldin hækkað úr 800 milljónum í 2,5 milljarða á þessu ári. 2,5 milljarðar eru svipaðir og tekjur sveitarfélags sem telur 2.500 manns eða helmingurinn sem félagsþjónustan kostar í Norðvesturkjördæmi. Þar finnst mönnum 33% auðlindagjald af rekstrarstofni of hátt og hafa áhyggjur af því að sjávarútvegurinn sé eina greinin sem skilar auðlindagjöldum. Þeir höfðu líka áhyggjur af afkomu smábáta. Nú er það ljóst að með þessu frumvarpi er verið að stórhækka afslætti krókabátanna og smábátanna með því að hafa 40%, eina tölu, í persónuafslátt af fyrstu 6 milljónunum. Þetta hækkar afslátt smábáta að hámarki úr 1,5 milljónum í 2,4 milljónir. Þetta er verulega mikil búbót fyrir þennan útgerðarflokk og eru það um 38% báta sem fá 406 milljónir í afslátt eða 852 útgerðir sem fá 40% afslátt af 6 millj. kr. veiðigjaldi. Landssambandið er afar ánægt með þessa niðurstöðu, lýsti því yfir á fundi í nefndinni. Greiðsla veiðigjalds umbjóðenda þeirra lækkar úr 150 milljónum í 73 milljónir. Það munar um það. Það er auðvitað verið að reyna að gera vel við þessa aðila.

Til samanburðar er veiðigjald á Íslandi af 27 tegundum en í Færeyjum af þrem tegundum. Eins og ég sagði áðan er eftirlitsgjald í Noregi 1,35% af aflaverðmæti. Að auki greiða íslenskar útgerðir kolefnisgjöld sem eru 9–12 kr. á lítra af olíu. Til upplýsingar þá hefur veiðigjaldið í Færeyjum alltaf verið hærra, að undanteknu árinu 2018. Veiðigjald á Íslandi er 9,3 kr. á kíló en í Færeyjum 6,9.

Sjávarútvegsfyrirtækin í Grindavík, á Suðurlandi og á Austurlandi létu taka saman upplýsingar um afkomuna og hvernig veiðigjöldin leggjast á útgerðir og vinnsluna í þessum sveitarfélögum. Þar er fyrst og fremst um bolfisksvinnslu að ræða en í Vestmannaeyjum er auðvitað blönduð útgerð bolfisks og uppsjávarfisks. Það kemur í ljós að í Vestmannaeyjum er hlutfall veiðigjalda af hagnaði 35,3%, í Grindavík eru þau 82,6% og á Austurlandi 19%. Það sér hver heilvita maður að svona afkoma, að 83% af hagnaði fyrirtækjanna fari í veiðigjöld, nær ekki nokkurri átt. Ég held að við þurfum að skoða það í nefndinni milli umræðna hvort ekki þurfi að setja inn bráðabirgðaákvæði í lögin um að á næsta ári verði það sérstaklega skoðað hvernig afkoma mismunandi útgerðargreina er gagnvart veiðigjaldinu vegna þess að í lok dagsins hlýtur niðurstaða þingsins að vera að gjöldin leggist sem réttast á mismunandi útgerðarflokka. Þessi skýrsla gefur greinilega til kynna að hér sé um mikinn og óþarfamismun að ræða.

Ég hef reynt að halda mig við það málefni sem hér er til umræðu, að ræða veiðigjöldin. Það er mikil og stór ákvörðun að leggja þessi veiðigjöld á. Mér finnst þau vera of há, ég ætla að viðurkenna það. Ég hef sagt það áður úr þessum ræðustól og hef sagt það líka núna að mér finnst að það eigi að fara aðrar leiðir, en þetta er niðurstaða meiri hlutans sem ég fylgi að sjálfsögðu þó að ég hefði kosið að við færum einfaldari leiðir. Við horfum upp á það að enn er verið að fækka frystitogurum. Eitt fyrirtæki hefur fækkað frystitogurum úr fjórum í einn á einu ári, 136 sjómenn hafa misst vinnuna. Þeir eru með í laun 200–300 milljónir á mánuði í laun. Það eru 3 milljarðar á ári og aflaverðmætið gæti hugsanlega verið, ef ég skýt á það úr þessum ræðustól, 15 milljarðar. Dettur nokkrum það í hug að menn séu að gera þetta vegna þess að útgerðin standi svo vel? Nei, það er vegna þess að þetta gengur ekki nógu vel upp. Það erum við, þingmennirnir í þessum sal, sem tökum ákvörðun um hvernig afkoman á að vera í sjávarútveginum sem með afkastagetu sinni og framleiðni hefur borið höfuð og herðar yfir allan annan atvinnurekstur á Íslandi. Það er mjög mikilvægt að hann verði áfram sú kjölfesta í atvinnulífinu, ekki bara á landsbyggðinni heldur um allt land og fyrir okkur öll.