149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:01]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Honum varð nokkuð tíðrætt um fjárhæð auðlindagjalda, samþjöppun í atvinnugreininni og áhyggjur af því og svo áhyggjur þingmannsins af því að engar aðrar atvinnugreinar greiddu slík auðlindagjöld. Ég get auðvitað ekki annað en spurt hv. þingmann hvaða flokkur hafi haldið á þeim ráðuneytum sem þessar greinar, eins og orkuiðnað og fleiri, snertu á undanförnum árum og hvers vegna þá hafi ekki verið meira gert í því í þingflokki hv. þingmanns að taka á þeirri ósanngirni út af fyrir sig.

En mér finnst alltaf jafn frábært að hlusta á Sjálfstæðisflokkinn í þessu máli. Það kemur alltaf betur og betur í ljós að þetta er ríkisstjórn hinna þriggja Framsóknarflokka. Það er ekkert sem heitir markaðshugsun í þessu kerfi hjá ykkur. Þið þingmenn ætlið að sitja hér á Alþingi aftur og aftur og rífast um hvað sé hið rétta auðlindagjald. Hvað sé hið rétta veiðigjald. Hvert þið teljið vera hið rétta veiðigjald. En aldrei fyrir nokkra muni treystið þið útgerðinni sjálfri til að verðleggja þetta. Aldrei.

Þetta er ekki markaðshyggjuflokkur, þetta er Framsóknarflokkurinn. Þeir eru reyndar þrír í þessari ríkisstjórn.

En ég skil ekki, og langar að spyrja hv. þingmann: Af hverju í ósköpunum getum við ekki látið greinina verðleggja þetta eins og Viðreisn hefur t.d. lagt til og fleiri flokkar? Það er ekki svo með aðrar atvinnugreinar hér á landi, ef við horfum t.d. á byggingariðnað eða fleiri. Það eru atvinnugreinar sem þurfa að berjast á hæl og hnakka til að tryggja sér verkefni. Þau hafa ekki fyrirsjáanleika til ára eða áratuga í þeim. Þau fjárfesta samt mjög myndarlega inn í sínar atvinnugreinar. Þau þurfa að afla sér sinna verkefna frá degi til dags og mánuði til mánaðar.

Auðvitað á sjávarútvegur alveg að geta boðið í veiðiheimildir til 20 ára, eins og breytingartillaga minni hlutans hljóðar upp á, þ.e. tímabinda slíkar veiðiheimildir. Mig langar gjarnan að spyrja hv. þingmann og fulltrúa markaðshyggjuflokksins: Hvað er það sem þið óttist svona mikið í þessu?