149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er einmitt kjarni málsins. Hv. þingmanni þykir það „lásí“ hjá mér. Mér þykir reyndar alltaf svolítið krúttlegt hvað Sjálfstæðismönnum sárnar að vera kallaðir Framsóknarmenn, sem þeir svo sannarlega eru. En þetta er auðvitað kjarni máls. (Gripið fram í.) Þetta er eðli markaðshagkerfisins. Sjávarútvegur hefur aðlagað sig að breyttum markaðsaðstæðum innan kvótakerfisins með frjálsu framsali á undanförnum áratugum og gert það með miklum ágætum. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því að greinin sé ekki fær um að gera það áfram.

Hv. þingmaður lýsti áðan breytingum í útgerðarmynstri, sem er alveg rétt að eru umtalsverðar. Fiskurinn verður veiddur. Ég hef engar áhyggjur af því. Þeim verðmætum verður ekki kastað á glæ. En greinin er stöðugt að finna nýjar og betri leiðir til að nýta sjávarfangið og það er auðvitað bara eðli markaðshagkerfis og eðli allra atvinnugreina, þær starfa á markaðsforsendum. Við eigum að leyfa þeim að starfa á markaðsforsendum. Það er það sem við óttumst ekki, að sjávarútvegurinn, frekar en aðrar greinar, geti ekki einfaldlega verðlagt þessi veiðigjöld, verðlagt verðmæti nýtingarréttarins, sjálfur. Án þess að hér standi þingmenn í pontu árum og áratugum saman með þessu áframhaldi, að reyna að komast að því hver sé hin eina rétta verðlagning.

Við treystum öllum öðrum atvinnugreinum í þetta. Ég verð alltaf jafn forviða þegar ég horfi á sér í lagi flokk eins og Sjálfstæðisflokkinn sem virðist ekki fyrir nokkra muni treysta sjávarútveginum í þá vegferð. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart.

Ég tek hins vegar undir orð hv. þingmanns, það er mjög gaman að fylgjast með gróskunni í sjávarútvegi á mörgum sviðum, tækninýjungunum og þróuninni sem þar hefur orðið, sem er einmitt ein af ástæðum þess hversu vel greininni hefur vegnað og hversu öflug og mikil þróun hefur átt sér stað þar á undanförnum áratugum. Ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því að greinin muni ekki ráða fram úr því sjálf, jafnvel þótt hún myndi verðleggja veiðigjöldin sjálf.