149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:39]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki um hvaða félagsfælni er verið að ræða þar sem þetta mál er búið að koma einu sinni áður inn til þingsins frá þessari ríkisstjórn og fá fulla umfjöllun eins og þingið vildi. Svo var boðað að málið kæmi aftur og ráðherrann meira að segja búinn að fara hringinn í kringum landið og hitta alla sem hann vilja hitta til að ræða þetta mál. (ÞorstV: Nema stjórnarandstöðuna.) Það er pólitísk ábyrgð hjá honum að geta komið með mál sem er með flestallt það sem hefur verið rætt síðastliðin 10 ár um hvernig ætti mögulega að innheimta þetta gjald.

En af hverju er þetta svona flókið og af hverju þarf að ræða svona mikið um hvernig á að innheimta þetta gjald? Af því að þetta er aðferðafræði sem að mínu persónulegu áliti gengur ekki upp, að rukka þessar aukaálögur. Ef atvinnugreininni gengur vel og nær að þróast þá borgar hún bara hærri tekjuskatt, þá skilar hún bara meira ef henni gengur vel.

Hvaða afgjald fyrir notkun á auðlindinni á útgerðin á að greiða? Það er, held ég, það sem hún hefur greitt fyrir nýtingarréttinn, þ.e. 95% af öllum nýtingarrétti er keyptur í dag. Það er borgað fyrir hann. (ÞorstV: Þjóðin er ekki eigandinn?) Þjóðin er eigandi. Ég er að tala um nýtingarréttinn. Þjóðin á aflaheimildirnar og þess vegna erum við að ákveða hvernig við innheimtum gjald af þessu, hve mikið er veitt og hvaða fyrirkomulag er og allt það. Því við eigum þetta og það er alveg skýrt. Svo er nýtingarréttur sem gengur kaupum og sölum. Ef fyrirtækjum gengur vel borga þau tekjuskatt. Því hærri sem veiðigjöldin eru, því lægri verður tekjuskatturinn á næsta ári. Þetta er það sem við erum að gera hérna.

Ég myndi velja að það væru engin gjöld og ég tel að almenningur fengi meira fyrir sína eign í hafinu þannig, ef nýsköpunin og þróunin og hvatinn fengi að ráða hér ríkjum og við værum ekki alltaf með pólitíska óvissu um hvað þeir eiga að borga eða hvort þeir haldi aflaheimildum sínum eða ekki.