149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:41]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að segja að það hefur reynst allerfitt um árin að ná sáttum um málefni tengd sjávarútvegi. Hv. þingmaður man það jafn vel og ég þegar hún var í stjórnarandstöðu árið 2012 og lagðist mjög eindregið gegn því veiðigjaldafrumvarpi sem þá var til umræðu af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem ég sat í þá og sagði þá að þetta væri í raun og veru algjört einsdæmi á heimsvísu, að láta útgerðina borga svona veiðigjöld, svona veiðiskatta.

Ég vil fagna því að hv. þingmaður og ég höfum færst nær í því að það er eðlilegt að útgerðin greiði gjald fyrir afnot af auðlindinni því það var svo sannarlega ekki samhljómur um það á Alþingi árið 2012 þegar við lögðum til almenna veiðigjaldið og sérstaka veiðigjaldið. Ef þau lög hefðu áfram verið í gildi og væru enn í gildi, væri innheimta veiðigjalda í kringum 5 milljarðar. (JónG: Allt of mikið.) Hún væri töluvert lægri en hún verður með þessu frumvarpi því hér er verið að reyna að ná fram sanngjörnu og gagnsæju kerfi við innheimtu veiðigjalda. En ég hef hins vegar skilning á því að hv. þingmaður leggur upp úr því að eiga samráð. Ég veit að hún skipaði nefnd í tíð sinni sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það var auðvitað um hana deilt á þeim tíma eins og hv. þingmaður man vel.

Ég vil þó segja að hingað kom inn mál um breytingar á veiðigjöldum í vor sem við hættum við og drógum til baka því við töldum að það væri allt of lítill tími gefinn. Síðan þetta frumvarp kom fram hefur það fengið töluverða umfjöllun í nefnd. Ég veit ekki betur en hér hafi verið haldnir 11 fundir og komið 100 gestir sem ég myndi telja að væri eðlileg þingleg meðferð.

Hv. þingmaður nefndi hér og gagnrýndi lækkun veiðigjalda. Ég hlýt að benda henni á, ef hún er sammála sínum orðum frá því í fyrra þegar hún sagði(Forseti hringir.) að hún teldi eðlilegt að færa álagningu gjaldsins nær í tíma, þá er hv. þingmaður líka sammála mér og fleirum um að það er eðlilegt að afkomutengja gjöldin (Forseti hringir.) og hafa álagninguna eins nálægt í tíma og við getum. Ég trúi ekki öðru en að við hv. þingmaður séum sammála um það.(Forseti hringir.)

(Forseti (JÞÓ): Forseti vill minna ræðumenn á að halda ræðutíma.)

Fyrirgefðu, forseti. Það voru margar spurningar.