149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er nú sem betur fer þannig og það er alveg ótrúlega gaman að fara um landið, fara í heimsóknir í vinnslur og útgerðir víða um land og sjá bæði þessar miklu fjárfestingar, þetta mikla skipulag og þá miklu verðmætasköpun sem á sér stað um allt land. Það er m.a. út af góðu kerfi. Samþjöppun í sjávarútvegi hefur ekki orðið til út af veiðigjöldum, þannig að það sé sagt. Samþjöppun byrjaði löngu áður en veiðigjöldin voru sett á. Við skulum líka hafa það hugfast. Þetta er fyrst og síðast afleiðing af kerfinu sem slíku. Það er verið að leita allra leiða til að ná sem mestri hagkvæmni og þess vegna hefur samþjöppun í sjávarútvegi orðið samhliða því að tækniþekking og fleira ýtir á það.

Að sjálfsögðu er það ekki, og þess vegna fannst mér svo sárt að upplifa metnaðarleysið sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra. Ég er ekki vön því. Hún hefur sýn. Hún vill taka okkur öll áfram. En metnaðarleysið felst í því að gefa sér ekki tíma og andrými. Ef einhver grein getur það á Íslandi er það sjávarútvegurinn í dag, út af lækkandi gengi, út af lækkandi olíuverði, út af hagnaði síðustu ára, sem er mun meiri en í öllum öðrum atvinnugreinum. Nú eru aðstæður til að staldra við og reyna að leita sátta, sýna að það er raunverulegt innihald í stjórnarsáttmálanum. Mér finnst eins og sáttakaflinn í stjórnarsáttmálanum sé kominn upp á Þjóðminjasafn og ekki er einu sinni liðið ár frá því þessi ríkisstjórn var stofnuð.

Ef einhver vilji er til þess að ná samkomulagi og sátt í þessari grein þá er það einmitt núna. Núna er tíminn, eins og segir í fallegu lagi.