149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:33]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni (Gripið fram í.) andsvarið. Nei, ég held að það sé ekki hægt að rífa þetta af útgerðinni og bjóða það upp sisvona. Það þarf náttúrlega að vera langur aðdragandi að því. Ég tel að við þurfum að leita leiða til að vinda ofan af því kerfi sem hefur mallað hér alveg síðan 1983 eða 1990, eftir því við hvað við miðum. Þetta kerfi hefur mallað við sára óánægju mjög stórs hluta þjóðarinnar og stór hluti þjóðarinnar verður aldrei sáttur við það. Ég held að það sé mun heilbrigðara að verð á heimildunum skapist í þannig viðskiptum.

Hv. þingmaður talar um að þeir hafi fengið kvótann sem sóttu sjóinn og það var á hv. þingmanni að skilja að það hefðu verið aðilar sem höfðu sótt sjóinn frá árinu 930. En það er ekki svo. Þetta voru menn sem höfðu sótt sjóinn frá árinu 1980–1983. Þetta var þriggja ára veiðireynslu sem var um að ræða og þeir sem voru svo óheppnir að falla utan þeirrar veiðireynslu höfðu ekki sams konar aðgang að auðlindinni og þeir aðilar sem það höfðu og hvað þá þeir sem komu síðar inn í greinina og þurftu að greiða viðkomandi lénsherrum fyrir aðganginn að auðlindinni.