149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:40]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það sem kemur fram í svarinu er einmitt dálítið mín upplifun á þessu. Ég sit hér í þingsal og hlusta á þessar umræður og velti fyrir mér: Hvað er það sem Vinstri græn eru í raun og veru að fá í staðinn fyrir þessa kúvendingu í afstöðu sinni í þessu máli? Svo mikla kúvendingu að segja má að guðfaðir flokksins í skattamálum, Indriði, H. Þorláksson, kaghýði flokkinn í grein í dag fyrir jólagjöf til útgerðarinnar, eins og hann kemst ágætlega að orði.

Ég sé ekki hvað það er sem Vinstri græn hafa fengið í skiptum fyrir þessi sinnaskipti. Það er alveg rétt, eins og hv. þingmaður bendir á, að flokkar eru ekki alltaf sammála um alla hluti í stjórnarsamstarfi og þá getur oft verið skynsamlegt, eins og var í tíð fyrri ríkisstjórnar, að leita eftir þverpólitísku samstarfi um stór ágreiningsmál. En í þessu stjórnarsamstarfi virðist vera að þegar kemur að þeim málum sem maður hefði haldið að yrðu stór pólitísk ágreiningsmál milli þessara flokka, sérstaklega milli Vinstri grænna og annarra, þá hafi Vinstri græn bara runnið inn í Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk á víxl. Og ekki verður séð að þau séu að fá mikið fyrir þau sinnaskipti í öðrum málaflokkum.