149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála. Þetta er mér líka hulin ráðgáta. Reyndar til þess að vera sanngjarn held ég nú að þau hafi náð að draga til sín einhverjar áherslur, sérstaklega í heilbrigðismálum og loftslagsmálin hafa þau talað um og gert mikið úr þeim. Í fyrsta lagi eru þetta náttúrlega bara svo brýn mál að það eru allir flokkar á þingi sammála um stórátak þar. Þar fyrir utan ganga þau skref afturábak frá þeim aðgerðum sem ríkisstjórn hv. þingmanns lagði til, m.a. í kolefnisgjöldum. Það er ekki einu sinni þar sem þau ná þessu.

Ég veit það ekki. Það er nú búið að skamma mig af forseta einu sinni í dag þannig að ég ætla nú ekki að segja það sem mér kom til hugar. En einhver myndi kannski, ef hann hefði ekki verið skammaður, láta sér detta í hug að menn hafi bara einfaldlega látið freistast af ráðherrastólum og jafnvel embætti forseta Alþingis. Ég hef auðvitað heyrt því fleygt. En mér finnst það svona jaðra við að vera ómálefnalegt þegar stjórn landsins er undir. Ég myndi ekki fullyrða þetta, allra síst núna. En það hefur auðvitað verið talað um þetta.

Ég ítreka að mér fyndist miklu heiðarlegra að Vinstri græn kæmu bara upp í pontu og segðu: Okkur finnst þetta frumvarp ömurlegt og okkur finnst það óréttlátt og okkur finnst það ekki byggjast á þeim sjónarmiðum sem standa á heimasíðu okkar flokks. En við teljum okkur, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra sagði við eldhúsdagsumræður, vera að bjarga þjóðinni og þess vegna gerum við samkomulag við flokk sem við erum ósammála í þessum málum til fjögurra ára og við munum styðja það til að halda ríkisstjórninni saman, en ekki verja málið. (Forseti hringir.) Það er auðvitað galið.