149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:44]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég get ekki neitað því að í þessari umræðu og undir henni hefur hugur minn hvarflað mjög til ársins 2013 þegar önnur ríkisstjórn var við völd en sú sem nú er. Hún stóð í sjálfu sér frammi fyrir svipuðu vandamáli og menn standa frammi fyrir í dag, þ.e. að þurfa að endurnýja veiðigjaldafrumvarp til þess að hægt væri að innheimta veiðigjöld næsta árs.

Árið 2013 höfðu menn töluvert háar hugmyndir, alla vega sá sem hér stendur. Ég viðurkenni að hafa verið svo grænn að hafa haldið að frumvarpið sem þá var undir myndi tefja samþjöppun og að áherslur þess myndu gagnast meira litlum og meðalstórum útgerðum. Ég man að á þeim tíma, fyrir fimm árum síðan, fóru nokkrir þingmenn hamförum í þingsal út af því frumvarpi sem þá lá fyrir. Ég man að einn hv. þm. Vinstri grænna sagði í hneykslunarrómi við þingheim: Er það þá þannig að þeir sem standa sig best eigi að greiða mest? Stutta svarið við spurningunni var já. En ég verð að viðurkenna að ég sagði við þáverandi hv. þingmann, núverandi hæstv. forseta Alþingis, að þetta væri út af fyrir sig skrýtnasti sósíalismi sem ég hefði heyrt um dagana.

En mig langar líka, með leyfi hæstv. forseta, að vitna til ræðu, einnar af mörgum, sem var flutt á þeim tíma, árið 2013. Þar má heyra eftirfarandi boðskap, með leyfi hæstv. forseta:

„Það finnst mér í stóra samhenginu vera kjarni þessa máls að verið er að horfa til þess að útgerðir í landinu greiði af umframhagnaði sínum eðlilega auðlindarentu til þjóðarinnar sem á auðlindina, sem ekki er deilt um. Það hefur verið sagt að í dag hafi stærstur hluti útgerðarmanna keypt sig inn í greinina og það er líka rétt en upphaflega fengu menn þessa auðlind án þess að greiða nokkuð fyrir og þannig byrjaði boltinn að rúlla. Það er enginn annar en þjóðin sjálf sem hefur skapað stærstan hluta af þeirri uppbyggingu og þeim arði og hagnaði sem er í greininni í dag. Ef það er ekki sanngjarnt núna, eftir allan þennan tíma, að menn fari að borga eðlilegri rentu af þessari sameiginlegu auðlind en verið hefur, nú þegar ríkissjóður hefur mjög mikla þörf fyrir að fá þessar tekjur, þá veit ég ekki hvenær sá tími kemur.“

Maður hefði svo sem getað giskað á nokkra þingmenn sem hefðu getað flutt ræðuna en þetta var engin önnur en hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sem flutti þá ræðu ásamt mörgum öðrum á þeim tíma.

En nú er það svo að fimm árum síðar hafa Vinstri græn í heild umpólast í afstöðu sinni til veiðigjalda. Þau eru orðin að því sem var í þjóðsögunum til forna kallað umskiptingar. Winston Churchill heitinn hefði nú sagt, eins og hann sagði hér áður og fyrr: Það er hygginna manna háttur að skipta um skoðun. Hinir gera það ekki. Þegar maður horfir á þetta þannig viðurkennir maður fyrir sjálfum sér að hugsanlega eru Vinstri græn upp til hópa hyggnari en margur hélt. Þau hafa greinilega séð ljósið við endann á ráðherrastólunum og þess vegna ákveðið hoppa á þann vagn að koma fram með þetta frumvarp í dag.

Ég ætla aftur að vitna til ársins 2013 þegar tíu stærstu útgerðarfélög á Íslandi greiddu 75% veiðigjaldanna. Þá voru kennitölurnar nokkur hundruð fleiri í sjávarútvegi en þær eru í dag, því að þrátt fyrir það sem gert var árið 2013 hélt samþjöppunina áfram. Bara svona af handahófi þá hafa stór eða meðalstór fyrirtæki sem síðan hafa runnið saman við önnur stærri verið staðsett á Seyðisfirði, í Vestmannaeyjum, í Þorlákshöfn, á Reykjanesi, á Vestfjörðum. Það kemur reyndar fram í greinargerðinni með frumvarpinu að núna er aflamarksúthlutun í prósentum til fimm stærstu útgerðarfyrirtækja í landinu svona tvö- og hálfföld miðað við það sem hún var 1991–1992.

Þetta er kannski stærsta áhyggjuefnið í frumvarpinu sem liggur fyrir. Þess vegna tek ég heils hugar undir það sem kemur fram í nefndaráliti 1. minni hluta um frumvarp til laga um veiðigjald þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Telur 1. minni hluti að leitast eigi við að tengja gjaldtökuna betur við afkomu þannig að til staðar verði þrepaskiptur afsláttur sem helst skili sér til lítilla og meðalstórra sjávarútvegsfyrirtækja.“

Þetta tek ég heils hugar undir. Ég óttast það nefnilega mjög að þetta frumvarp, eins og það liggur fyrir, muni ekki tefja samþjöppunina heldur þvert á móti hvetja til hennar. Það hefur væntanlega í för með sér byggðaröskun, sem ég hélt að ég myndi ekki sjá til hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur taka undir og vinna að. Ég tel algerlega víst að þetta frumvarp verði til þess að hér verði enn þá meiri samþjöppun og byggðaröskun af þeim sökum.

Það er náttúrlega þannig, eins og við vitum öll, að umræða um sjávarútveg á Íslandi fer fram af mikilli tilfinningu en stundum ekki af mikilli þekkingu, enda eru málin flókin og það er gert í því að gera þau flókin. Samt sem áður er sú staða uppi að við erum með örfá risastór fyrirtæki sem eru ágætlega í stakk búin til að greiða veiðigjöld og greiða skatta o.s.frv. og eru, sem betur fer, í góðum rekstri og greiða þess vegna eigendum sínum arð. Þeir sömu eigendur greiða svo 22% af arðinum í fjármagnstekjuskatt í ríkissjóð, sem sagt hið besta mál.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að sú þróun sé komin það langt að hún sé farin að valda, og kunni að valda, vandræðum sem sé ekki gott að vinda ofan af. Þess vegna finnst mér, eins og ég sagði áðan, og ég óttast mjög að við sjáum enn fleiri meðalstór fyrirtæki leggja upp laupana og verða sett inn í aðrar stærri samstæður. Ég tek skýrt fram að árið 2013, svo að ég hlaupi aftur í tíma, voru fyrirtækin sem ég vitnaði til, sem sagt meðalstór sem runnu saman við stærri samstæður á þeim fimm árum sem liðin, voru, fyrirtæki í ágætum rekstri. Þetta voru fyrirtæki með alveg þokkalega kvótastöðu. Þetta voru fyrirtæki sem voru að reka frá einum upp í þrjá, fjóra báta, voru með kvóta upp á allt að 3.000–4.000 tonn. Samt lánaðist þeim ekki að standast þau veiðigjöld sem voru ákveðin á árið 2013.

Hugsanlega er það vegna þess skuldaafsláttar sem þá var uppi og margir þingmenn Vinstri grænna voru æfir út af. Kannski er það vegna þess að í þessu frumvarpi og þeim lögum sem þá voru sett var sólarlagsákvæði um að skuldaafslátturinn myndi deyja út á nokkrum árum. Það er mögulegt.

Þess vegna held ég, svei mér þá, og þetta hef ég bara eftir að hafa rætt við menn í þeim geira, aðallega þá sem koma nálægt rekstri smærri og meðalstórra fyrirtækja, að það hafði hefði hugsanlega verið leið í þessu máli núna að veita þann skuldaafslátt að einhverju leyti aftur, til þess að reyna að koma í veg fyrir þá samþjöppun sem blasir við að óbreyttu.

Það þýðir ekki að þetta frumvarp sé alvont, langt í frá. Það er til bóta að byggja álagningu veiðigjalds á upplýsingum sem eru nær í tíma en hefur verið. Ég hef stundum líkt því við það að áður en staðgreiðslukerfi skatta var sett upp gerðu ungir menn oft góðar vertíðir og höfðu ekki efni á því að minnka við sig vinnu því að þeir áttu í erfiðleikum með að greiða skattinn árið á eftir. Ekki beint fyrirhyggjusamt. Það má að sumu leyti segja að útgerðarfyrirtækin séu það ekki heldur, vegna þess að veiðigjöldin sem þau eru að greiða núna byggjast á tekjum sem þau höfðu fyrir tveimur, þremur árum síðan. Engu að síður held ég að við hljótum öll að vera sammála um að það borgar sig fyrir alla og er vænlegra til árangurs að sú álagning sé byggð á upplýsingum sem eru nær í tíma.

Ég vil líka taka fram að ég held að það sé til mikilla bóta að ríkisskattstjóri fái samkvæmt frumvarpinu umsjón með innheimtu veiðigjalda og upplýsingaöflun sem var áður í höndum veiðigjaldanefndar. Ég held að það sé til mikilla bóta að ríkisskattstjóri fái það hlutverk.

Ég minntist á það áðan að ég hefði áhyggjur af enn meiri samþjöppun og enn meiri fækkun fyrirtækja. Auðvitað er það þannig og við getum alveg horft á það og góðir hagfræðingar gætu eflaust leitt að því líkur að fimm sjávarútvegsfyrirtæki gætu séð um að veiða kvótann við Íslandsstrendur. Við gætum þá haft eitt fyrirtæki í hverjum landsfjórðungi og það fimmta í Vestmannaeyjum, svo að dæmi sé tekið af handahófi. En það er ekki það sem við höfum viljað til þessa. Við höfum viljað halda landinu í byggð. Við höfum viljað að smáar útgerðir úti um byggðirnar hefðu tækifæri til að vaxa og dafna. Þær eru náttúrlega akkeri fyrir byggðirnar.

Við heyrum því miður nánast í hverjum mánuði af vandamálum á ýmsum smærri stöðum á landinu sem eru hugsanlega afleiðing af því kerfi sem við höfum verið að byggja upp.

Þess vegna ríður á að við högum innheimtunni þannig að minni fyrirtæki geti þrifist og lifað og að byggðirnar geti þróast og lifað áfram. Við viljum væntanlega fæst okkar að Ísland verði ein allsherjareyðibyggð hér lítið austur og vestur af okkur á höfuðborgarsvæðinu.

Það er líka annað sem hefur kannski flækt þetta mál og það er að vinnsluaðferðir hafa breyst nokkuð vegna þess að markaðurinn hefur breyst. Það hefur orðið til þess að mjög stór hluti afurða er unninn á svæði sem nær kannski frá sunnanverðum Vestfjörðum eða norðanverðu Snæfellsnesi í vestri að Þorlákshöfn í austri. Þetta segir að stóru vinnslurnar sem kveður að utan þessa svæðis er að finna á Eyjafjarðarsvæðinu, í Skagafirði, Þórshöfn á Langanesi, Neskaupstað eða Eskifirði, Seyðisfirði, Höfn í Hornafirði. Því hefur maður miklar áhyggjur af. Og ég má ekki gleyma Vestmannaeyjum. En þetta er samt áhyggjuefni. Þarna blasir samþjöppun líka við.

Þá komum við að því að mín tilfinning er sú að stærstu sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi séu þegar komin upp úr kvótaþakinu. Það er, á ég að segja falið eða á ég að segja sett fram með þeim hætti að þessi fyrirtæki eiga mörg dótturfyrirtæki sem eru handhafar veiðiheimilda? Þetta hangir líka á því að ég tel að algjör nauðsyn sé fyrir okkur að breyta samkeppnisþættinum í fiskveiðistjórnarlögunum.

Málið er að ég er búinn að hafa í huga nokkuð lengi að setja fram breytingu á samkeppnislögum yfir höfuð sem myndi taka sérstaklega á því hvað teljast skyldir aðilar. Ég veit að það kemur mörgum á óvart hér inni en þar hafði maður aðallega í huga stórar verslunarkeðjur eins og t.d. Haga og Festi sem eru í eigu sömu lífeyrissjóðahópanna, sem eru ekki skilgreindir sem skyldir aðilar. En það kveður enn þá rammar að því í sjávarútveginum. Þar er t.d. að finna forstjóra mjög stórs fyrirtækis, Samherja, og stjórnarformann Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þetta eru óskyldir aðilar en sami maðurinn, sem er óskyldur aðili. Koma þá upp í hugann orð Davíðs Oddssonar þegar hann frétti að Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson væru óskyldir aðilar: Skyldi Þóra vita af þessu?

Hæstv. forseti. Þetta er það sem við þurfum að taka á. Það er hægt að gera það á ýmsan hátt. Það mætti t.d. hugsa sér að lækka þakið sem hver einstök útgerð má eiga. Hvað yrði þá gert? Jú, það er engin eignaupptaka í því, þeir hlutir yrðu einfaldlega seldir. Hverjir myndu kaupa? Jú, við myndum kannski eignast fyrirtæki þannig að topp tíu listinn, topp fimmtíu listinn yrði kannski svolítið jafnari. Hann væri kannski ekki bara með fimm, sex mjög stórum toppnum heldur svolítið jafnari þannig að við fengjum þá í staðinn fyrir að hafa 5–10 risa landslag þar sem væru 20–50 burðug fyrirtæki, mjög burðug, sem segir líka að það lægi í hlutarins eðli að þau væru þá væntanlega dreifð öllu meira um landið en þessi topp fimm.

En þetta er hugleiðing vegna þess að ég tel að við þurfum með einhverju móti að skapa frið um þessa atvinnugrein. Við þurfum að skapa frið um þetta kerfi. Þetta frumvarp gerir það að mínu mati ekki. Þó að það sé margt gott um þetta frumvarp að segja, og væntanlega mun ég styðja það, tel ég samt að það gangi of skammt akkúrat í því. Kannski er það eins núna og árið 2013. Ég man að þá voru menn í miklu tímahraki að gera þær breytingar sem gerðar voru. Svo virðist sem menn hafi verið í nokkru tímahraki núna við að vinna frumvarpið. Ég veit reyndar ekki af hverju, kannski vegna þess að ríkisstjórnin er samansett af tveimur ólíkum flokkum með lítinn hjálparsvein með sér. Kannski eru það bara átökin á milli þessara póla sem hafa tafið að þetta mál kemur fram. Ég skal ekki segja.

En alla vega fer það oft þannig að þegar tveir óskyldir aðilar, sem eru með mjög ólíkar skoðanir á hlutum, ná samkomulagi verður samkomulagið af frekar lágum þröskuldi, eigum við að orða það þannig? Til að halda í stólana hérna fyrir aftan eru menn tilbúnir í báðum vængjunum að kyngja hinu og þessu, til að líma saman stjórnarsamstarfið áfram. Það er það sem ég sé mest athugavert við frumvarpið. Mér finnst það ekki djarft. Mér finnst það ekki ganga nógu langt. Ég er viss um að það leysir ekki vandamál. Ég hugsa að það skapi fleiri vandamál en það leysir.

Við alþingismenn, sem þurfum að væntanlega að taka afstöðu til þess á næstunni hvernig við greiðum atkvæði í málinu, (Forseti hringir.) lendum í því að gera það upp hvað okkur finnst um akkúrat þetta.