149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um veiðigjald sem gerð var atlaga að að koma fyrir þingið fyrir ári. Það voru auðvitað töluverð vonbrigði að ríkisstjórnarflokkarnir skyldu ekki klára málið þá, enda var öllum ljóst sem þá fylgdust vel með í sjávarútvegi að fyrirhuguð gjaldtaka þessa árs, 2018, var úr öllu samhengi við afkomu greinarinnar. Það liggur þannig núna að veiðigjöld fyrir árið 2018 verða um 11,4 milljarðar. Ég er hér með mér úttekt Deloitte-endurskoðunarfyrirtækisins, „Samantekt á rekstri sjávarútvegsfélaga á Austurlandi, Grindavík, Vestmannaeyjum, Snæfellsnesi og Vestfjörðum, rekstrarafkoma 2016 og 2017“. Það er auðvitað alveg sláandi að sjá það þegar tölurnar liggja fyrir núna að við erum með hagnað á landinu öllu upp á 27 milljarða á árinu 2017. Árið 2018 erum við með veiðigjöld upp á 11,4 milljarða ofan á þann tekjuskatt sem þessum félögum er gert að greiða. 42% af hagnaði síðasta árs eru sem sé tekin í veiðigjald í ár. Þetta auðvitað endurspeglar þá vondu útfærslu sem verið er að reyna að vinda ofan af núna í þessum breytingum, sem snýr að því annars vegar að það sé mjög langt á milli þess tímabils sem er grundvöllur, andlag, veiðigjaldanna og þess raunveruleika sem fyrirtæki horfast í augu við í rekstri hverju sinni.

Regluverkið sem við höfum smíðað um sjávarútveg landsmanna, þeirra fyrirtækja sem sækja sjóinn, er ekki hugsað þannig að við ætlum að ýta undir samþjöppun. En það er akkúrat það sem er að gerast núna innan þessa kerfis sem við erum búin að byggja upp og er síðan grundvöllurinn að því veiðigjaldakerfi sem við höfum lifað við undanfarin ár og því miður lifa ansi mörg millistór og minni fyrirtæki ekki við það. Hluturinn sem við höfum verið að fylgjast með undanfarna mánuði og misseri er að litlir og millistórar aðilar eru að heltast úr lestinni af því að veiðigjöldin eru einfaldlega of þung byrði að bera. Það er mannlegt eðli eða sjálfsbjargarviðleitni eða hvað sem við köllum það að þegar menn ráða ekki við þann bagga sem á þá er lagður leita menn leiða til að koma sér út úr því umhverfi. Það gerist í dag ekki nema með einum hætti í þessu umhverfi, þ.e. að menn selja frá sér aflaheimildirnar til stærri og öflugri aðila og í kjölfarið eykst samþjöppun sem ég tel mig fullvissan um að er ekki hugmyndin í þessum sal.

Það er auðvitað ekki þannig að fyrirtæki í sjávarútvegi geti ekki farið á hausinn eins og í hverjum öðrum rekstri en það er ekki markmið þessa regluverks að ýta undir það að litlar og millistórar útgerðir sigli inn í erfiðleika vegna þessara veiðigjalda. Það getur ekki verið markmiðið. Ef það er markmiðið er bara gott að það komi í ljós.

Ég tel fullvíst að hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem nú kemur í salinn, er ekki að fara að koma hér á eftir í andsvar til að útskýra fyrir mér að það sé markmiðið. Ég tel mig vita að svo sé ekki.

Samþjöppunin mun bara halda áfram ef haldið verður áfram á þessari braut. Eins og ég kom inn á í byrjun ræðu minnar voru það töluverð vonbrigði að ekki skyldi takast að klára þetta mál í vor. Nú liggur fyrir að Miðflokkurinn er ekki á þeim málum sem aðrir flokkar stjórnarandstöðunnar leggja hér fram sem er með einum eða öðrum hætti útfærsla á fyrningarleið sem Samfylkingin hefur talað fyrir í gegnum tíðina og Viðreisn virðist vera með sambærilega útfærslu á. Þó að það sé kölluð markaðsleið er það auðvitað ekkert annað en fyrningarleið. Það er annar fleygur inn í þetta kerfi sjávarútvegsins sem ég held að engin sátt verði um að reka á þessu þingi.

Aðeins að rekstrarniðurstöðunum aftur. Við erum að tala um að á milli áranna 2016 og 2017, ef við tökum Snæfellsnes og Vestfirði sérstaklega út fyrir sviga, er hagnaður að dragast saman um 89% hjá þeim fyrirtækjum sem þar standa í sjávarútvegi. Það er illleysanleg staða þegar hagnaður fer niður um 89% og menn eru á sama tíma að berjast við að greiða sem nemur 42% af hagnaði alls geirans árið á undan í veiðigjöld, 11,4 milljarða. Þá er alveg augljóst að veikustu svæðin eru gegnumgangandi í bolfisksveiðum og -vinnslu; staðan er sem betur fer skárri hjá þeim sem hafa hluta eða þunga sinnar starfsemi í uppsjávarveiðum. Þeir sem eru í bolfisksvinnslu, og sérstaklega milliskuldsettar og skuldsettar útgerðir, eiga mjög erfitt um andrými. Það sem gerist með þessu er auðvitað það, eins og ég sagði áðan, að menn selja sig út úr greininni. Menn fresta fjárfestingum, menn uppfæra ekki búnað og menn gera verr við áhafnir sínar. Öðruvísi er þetta ekki leyst fyrr en kemur að þeim tímapunkti að menn gefast upp.

Í þessari samantekt Deloitte er glæra sem er ansi sláandi, á bls. 11 fyrir þá sem koma höndum á þessa skýrslu, þ.e. veiðigjöld sem hlutfall af hagnaði. Þar er þessu skipt niður á svæði, það eru Snæfellsnes og Vestfirðir, Vestmannaeyjar, Grindavík og Austurland, og þar kristallast hve staðan er snúin á þeim svæðum sem reiða sig á bolfisksveiðar og -vinnslu. Staðan er sú að veiðigjöld fyrir árið 2017 sem hlutfall af hagnaði eru 74%. 74% af hagnaði fyrirtækjanna fara í að borga veiðigjöld. Það sér það hver maður að fyrirtæki sem eru í þessari stöðu rekstrarlega eru ekki að fara að byggja sig upp. Þau eru ekki að fara að bæta við sig kvóta. Þau eru ekki að fara að fjárfesta í nýjum bátum og skipum, þau eru ekki að fjárfesta í nýrri tækni. Þau hafa ekki svigrúm til að gera betur við starfsmenn sína og áhafnir.

Þetta er algjörlega ótæk staða. Þetta hlutfall, 74% af hagnaði, er ótrúlega hátt á Snæfellsnesi og Vestfjörðum en ef við horfum til Grindavíkur, sem er líka skoðuð í þessari úttekt hjá Deloitte, er hlutfallið 82,6%. Það stendur náttúrlega ekki nokkur heilvita maður í rekstri þar sem hann þarf að reka fyrirtæki sitt með allri þeirri áhættu sem því fylgir, borga skatta og gjöld af hagnaði og til viðbótar við það eru tæp 83% af hagnaðinum sem eftir er tekin í veiðigjöld. Við verðum með einhverjum hætti að koma okkur inn í það umhverfi að þetta kerfi sé sanngjarnara og endurspegli betur raunafkomu hvers svæðis og hvers útgerðarflokks fyrir sig.

Það er nú sem betur fer það sem er að takast í annarri atrennu, vonar maður, að koma þessu í gegn, þ.e. bara hvað varðar þessa heildarnálgun á lækkun gjaldanna, hóflega lækkun — of litla leyfi ég mér að segja — og síðan það að koma til móts að einhverju marki við minnstu útgerðirnar. En því miður er þakið á þeim hliðarreglum sem settar eru þannig að þær gera ekki mikið fyrir millistóru útgerðirnar. Það munar auðvitað um allt, en það er ekki björgunin, ef svo má segja. Slagurinn verður mjög erfiður og reksturinn snúinn hjá þessum millistóru útgerðum og útgerðum sem eru þarna á milli þess, svona stærri minni útgerðum ef ég má orða það svo klaufalega.

Við höfum sagt það, og fulltrúi Miðflokksins í atvinnuveganefnd setti það fram í nefndaráliti sínu, að sú nálgun sem hér væri viðhöfð gerði auðvitað fátt annað en að festa í sessi mjög mikla sértæka skattlagningu á þessa einu atvinnugrein. Það er bara þannig en ég verð að segja, svo að allrar sanngirni sé gætt, að hæstv. sjávarútvegsráðherra er nokkur vorkunn að standa í þessum slag. Það er auðvitað þannig að hér á þingi eru flokkar sem orða það svo af svo mikilli hreinskilni að þeir tala um að tekjustofnar til nýrrar skattheimtu séu bara eins og hlaðborð sem stjórnmálamenn þurfa að velja úr. Skilningsleysið á rekstri og því sem þarf að koma til til að fyrirtæki geti skapað verðmæti í því samfélagi sem við búum í til að halda uppi því velferðarkerfi sem við búum við er því miður algjört hjá furðustórum hópi þingmanna, leyfi ég mér að segja.

Menn verða þá bara að skamma mig hér á eftir fyrir að halda þessu fram. Menn verða að átta sig á samhengi þess að það sé hvati til verðmætasköpunar og það sé ýtt undir hann en hann ekki drepinn niður. Það er það sem við erum að gera með því að taka nær allan hagnað sem hönd á festir út úr sjávarútveginum. Þetta er sá geiri, þetta er sá atvinnuvegur sem, þegar hann er aflögufær, fjárfestir hæsta hlutfall sinna tekna í þróun og sókn inn á nýja markaði og til nýrra lausna. Við horfum bara á fyrirtæki eins og Marel, 3X, Vaka. Listinn er langur, þetta eru allt saman fyrirtæki sem byggjast upp af mestu afli þegar sjávarútvegurinn er í hvað bestri stöðu. Það er bara þannig.

Sjávarútvegurinn, ef ég tala um hann sem heild, er iðulega skammaður fyrir arðgreiðslur. Það virðist vera orðin einhver mantra víða í samfélaginu að arðgreiðslur séu af hinu illa þegar staðreyndin er auðvitað sú að arðgreiðslur eru nauðsynlegar til að menn hætti eignum sínum í rekstur. Því er haldið fram að arðgreiðslur í sjávarútvegi séu óforsvaranlegar þegar staðreyndin er sú að arðgreiðsluhlutfall sjávarútvegsfyrirtækja er umtalsvert lægra en annarra greina ef við horfum á hlutfall arðgreiðslna allra fyrirtækja í landinu þannig að framganga þeirra sem stýra sjávarútvegsfyrirtækjum hvað arðgreiðslur varðar er ekki groddalegri en svo að þeir eru langt undir landsmeðaltali ef horft er á það eins og tölur Hagstofunnar liggja fyrir.

Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra hér í kvöld en ég vil segja að ég styð auðvitað þetta mál eins og það liggur fyrir og hefði viljað sjá að lengra yrði gengið. Væntanlega verður tekinn slagur eftir þennan slag þó að sambúðin á ríkisstjórnarheimilinu sé með þeim hætti að ekki er víst að hann verði tekinn alveg strax. Menn verða að vinna úr því, menn velja sér dansfélaga sjálfir.

Mér finnst það mjög mikilvægt sem þó er að nást fram. Það er verið að einfalda regluverkið þó að það sé vissulega enn allflókið. Það er verið að færa gjaldtökuna nær í tíma sem er gott og raunar nauðsynlegt. Það er verið að horfa til heildarlækkunar en þó að umræður í þingsal í dag og í gær beri á löngum köflum annað með sér er gjaldtakan enn mjög há. Það verður bara að horfa á hlutina eins og þeir eru, hlutföllin eins og þau eru, hver veiðigjöld verða sem hlutfall af hagnaði eða EBIDTU eða hvaða mælikvarða menn vilja horfa á. En svo þurfum við, held ég, í næstu uppfærslu á þessum reglum að horfa til þess að farið verði í að horfa ekki á sjávarútveginn sem eina heild. Nú hefur okkur tekist að færa okkur nær í tíma hvað álagningu gjaldanna varðar. Ég held að við verðum líka að komast á þann stað að færa okkur nær raunveruleika hvers útgerðarflokks en okkur tekst í þessari atrennu.

Ég ætla að láta þessu lokið að sinni, lýsi því yfir hér að ég mun styðja þetta mál eins og það liggur fyrir og treysti á að hæstv. sjávarútvegsráðherra geri aðra atlögu að dansfélögum sínum áður en langt um líður.