149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu sem bar vitni um að hann hefur ágætisinnsýn í atvinnugreinina sem hér liggur undir. Ég get alveg upplýst að ég deili skoðun í mjög mörgum þáttum greiningar hans á því máli sem er til umræðu. Það er bara þannig.

Frumvarpið eins og það liggur fyrir er málamiðlun. Sambúðin á ríkisstjórnarheimilinu er góð, svo að það sé sagt og því svarað.

Það er ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður styður frumvarpið í öllum meginatriðum. Það er ánægjulegt og gott að finna fyrir þeim stuðningi vegna þess að í mínum huga er þetta skref í þá átt að við þróum þessa gjaldtökuleið með betri og fyllri hætti. Ég tel raunar að við þurfum að fara að fikra okkur nær því sem hv. þm. Sigurður Páll Jónsson hefur verið að kynna og tala fyrir, að við horfum til þess hvernig við getum lagt gjald á sameiginlegar auðlindir aðrar.

En mig langar að forvitnast aðeins um það hjá hv. þingmanni sem snýr að breytingartillögum á fyrirliggjandi frumvarpi frá Viðreisn, Samfylkingu og Flokki fólksins. Þær eru kynntar undir þeim formerkjum að þeim sé ætlað að stuðla að meiri sátt um sjávarútveg á Íslandi. Deilir hann þeirri skoðun með þeim hv. þingmönnum sem tala mest fyrir því úr þeim ranni stjórnarandstöðunnar að þær hugmyndir sem þar eru um innlausn veiðiheimilda o.fl., (Forseti hringir.) einhvern sjóð, séu leiðin til sátta, ef svo mætti segja, um íslenskan sjávarútveg?