149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir prýðisgóða ræðu. Mér heyrðist þingmaðurinn koma inn á það í ræðu sinni að þó að nokkuð væri að gert fyrir litlar og millistórar útgerðir í þeirri útfærslu sem nú liggur fyrir með breytingartillögum meiri hlutans teldi hann skynsamlegt að horfa til þess að bæta stöðu þessara útgerðarflokka betur þegar fram í sækir. Mig langar bara að forvitnast um hvort ég skildi þingmanninn rétt, hvort hann líti á þetta sem eitt skref af kannski fleirum í að ná sátt í þessum málum þannig að allir geti unað bærilega við og hvað hann sjái fyrir sér gagnvart þessum minni og millistóru útgerðarflokkum.