149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:40]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir sitt innlegg. Eftir að hafa verið viðstödd og hlustað á held ég 99% af ræðunum hefur eitt og annað merkilegt komið í ljós. Sumt er í rauninni bara staðfesting á því sem var löngu vitað. Ég veit að hæstv. ráðherra fór í ferð um landið. Ég veit að hann átti marga fundi eins og sjávarútvegsráðherrar og allir ráðherrar eiga að gera þegar þeir kynna grundvallarmál, þá eiga menn að fara um landið, það á að kynna málið og reyna að gera það sem best.

En þegar verið er að tala um sátt er ekki síst verið að tala um þverpólitíska sátt. Ég vil meina að með tillögum okkar sem við leggjum fram hér, annars vegar varðandi tímabundna samninga og hins vegar uppbyggingarsjóði eða hvernig sem við viljum þróa framlag til þess að byggja upp enn frekar á landsbyggðinni, sé verið að slá af okkar hálfu þann tón að hægt sé að ná samkomulagi um mál sem við í gegnum tíðina höfum heyrt að allir flokkar, nema Sjálfstæðisflokkurinn reyndar, séu tilbúnir til að teygja sig í, þ.e. í tímabundna nýtingarsamninga með einum eða öðrum hætti.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju var ekki haft samráð, hvorki í vor né í haust? Af hverju voru ekki símtöl tekin, þó ekki væri nema að spyrja stjórnarandstöðuna, leita ráða og hlusta á hvort það væri möguleiki á þessari sátt. Fyrir utan hvað það hefði verið frábært ef við hefðum sett málið í eitt samvinnuferli, sem þeim hugnast örugglega mörgum sem tilheyra þessum framsóknarflokkum, að setja það í eitt slíkt ferli.

Við vorum tilbúin. Við vorum reiðubúin. Ég held að það sé lag til þess að gera það því eftir allt sem við erum búin að tala um þá greini ég vilja, ákveðna taug, sem getur sameinað okkur hér inni í því að taka vel og heildstætt á sjávarútveginum þannig að það verði í þágu hans, (Forseti hringir.) þessarar mikilvægu atvinnugreinar, en líka í þágu þjóðarinnar. Ég spyr: Af hverju var þetta ekki reynt?