149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Það eru margvíslegar ástæður fyrir því að ég kaus að skipa ekki einhvern þverpólitískan hóp til að fara í þessa vinnu. Þetta er stjórnarfrumvarp. Stefna ríkisstjórnarinnar kemur fram í því. Ég tel eðlilegt að við tökumst á um þá stefnu sem þar er mörkuð hér í þinginu, hvor tveggja í þingsal og í þingnefndinni sem hefur gefið þessu góðan tíma, með þeim árangri að við erum enn með þetta langt á milli pólitískra afla hér á þingi.

Ég hef ekki neina einustu sannfæringu fyrir því að við værum í öðrum sporum í dag miðað við útfærsluna á þeim hugmyndum sem hér liggja fyrir til breytinga á frumvarpinu. Ég skal vera fyrstur manna til að viðurkenna það að ég vil gjarnan skilja betur þá hugsun sem liggur að baki þeim tillögum til breytinga sem hér hafa verið kynntar af Pírötum, Samfylkingu, Viðreisn. En mér finnst í umræðunni hér síðustu tvo daga að jafnvel þeir sem standa að tillögunni hafi ekki á henni sama skilning, hvernig hún verði þegar fram líða stundir.

Ég bendi bara á þetta tiltölulega litla atriðið en þó gríðarlega stóra, sem hefur komið fram í umræðunni hér og kristallar kannski þennan stóra ágreining, sem snýst um endurúthlutun eða útboð. Þegar ég nefni þetta hérna stynur formaður Viðreisnar og þolir ekki þá umræðu, að ég varpi þessu fram. Þarna liggur að mínu mati stærsti ágreiningurinn í umræðu síðustu tveggja daga um þetta mál. Það er bara svo einfalt.