149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:53]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langaði að koma hingað upp til að minna á þingmál sem hefur nokkrum sinnum verið flutt og kallast sannleiksskylda ráðherra. Það hefur verið nefnt öðrum nöfnum líka. Það væri áhugavert að fá það í gegnum þingið, sérstaklega gagnvart styrkingu Alþingis. Það hefur einmitt borið á því, án þess að ég haldi því fram að það hafi átt sér stað akkúrat núna, svo því sé haldið til haga, að ráðherra segi þinginu ekki endilega satt. Mér finnst alveg eðlilegt að gerð sé skýrari krafa um upplýsingaskyldu ráðherra gagnvart þinginu en nú er til staðar.

Eins og ég segi finnst mér það kannski ekki eiga við akkúrat um þetta tilvik hér en ég vildi samt koma upp og minna á þetta vegna þess að mér finnst mikilvægt að styrkja þingið gagnvart því að því sé sagt satt og rétt frá.

Sömuleiðis vil ég krækja því við í lokin, þó að ég vilji ekki breyta andsvarafyrirkomulagi okkar, að mér þykir heldur hallærisleg sú hefð eða hegðun hæstv. ráðherra að koma í andsvör um tillögur hjá þingmönnum minni hlutans með eitthvað sem hefur ekkert með þær tillögur að gera en (Forseti hringir.) sleppa því að ræða við þá þingmenn sem mæla fyrir þeirri tillögu. Það þykir mér frekar slappt.