149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX., XII. og XXII. viðauka við EES-samninginn.

339. mál
[23:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirferðina yfir þetta mál sem er allrar athygli vert. Þegar ég las greinargerðina með þessari tillögu til þingsályktunar og reyndar allar hinar sem við erum með undir núna — ég leyfi mér aðeins að minnast á það af því að ég er ekki beinlínis að fara í sjálft efni málsins — tek ég eftir því að í fjórum þessara tillagna heitir 2. kafli í greinargerðinni „Um upptöku ESB-gerða í EES-samninginn og um stjórnskipulegan fyrirvara“. Þetta eru kaflar sem eru orðrétt eins í öllum fjórum þingsályktunartillögunum en það er ekki sambærilegur kafli í þingsályktunartillögunni í máli 102/2018, þ.e. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XXII. viðauka, um félagarétt, og bókun 37 sem inniheldur skrána sem kveðið er á um í 101. gr. við EES-samninginn.

Nei, fyrirgefið. Nú las ég upp úr vitlausri tilskipun. Blessuð númerin eru alltaf að rugla menn. Það sem ég átti við er að þetta er ekki í þingsályktunartillögu 152/2018, um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XI. viðauka um rafræn fjarskipti, hljóð- og myndmiðlun og upplýsingasamfélagið.

Í fyrsta lagi vekur athygli mína að þetta skuli vera svona. Kaflinn er kominn inn og af hverju er hann þá ekki í öllum tillögunum til þingsályktunar? Ég sé ekki beinlínis í fljótu bragði hvaða rök standa til þess.

Í málinu sjálfu sem við erum að skoða langar mig til að lesa, með leyfi forseta, 1. mgr. í þessum nýja kafla. Þar stendur:

„Á hverju ári er nokkur fjöldi ESB-gerða tekinn upp í EES-samninginn með ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þó er um að ræða tiltölulega lágt hlutfall af heildarfjölda þeirra gerða sem ESB samþykkir. Í skýrslu utanríkisráðuneytisins, Gengið til góðs – skref í átt að bættri framkvæmd EES-samningsins, kemur fram að á tímabilinu frá 1994 til ársloka 2016 tók Ísland upp 13,4% þeirra gerða sem ESB samþykkti á sama tímabili.“

Ég er að velta fyrir mér hvaða efnislega tilgang þessi málsgrein hafi í þeim fjórum málum sem eru hér undir í kvöld. Hverju bætir þetta við rökstuðning fyrir þingsályktunartillögunum? Má reikna með að sú hlutfallstala sem þarna er birt verði reiknuð upp í hvert skipti sem fram kemur þingsályktunartillaga sem varðar EES-samninginn þannig að við getum fylgst með því nákvæmlega? Ég myndi þá leggja til að bætt yrði við aukastaf þannig að við gætum fylgst nákvæmlega með hlutfallinu. Mér finnst mjög sérkennilegt að setja þetta inn í þessar greinargerðir og átta mig alls ekki á tilganginum með þessu, hvaða þýðingu þetta hefur fyrir þessar ályktanir, skilning manna á þeim eða framgang þessara mála.

Menn eru mjög mikið að velta fyrir sér hlutfalli þeirra gerða og hve mikinn Evrópurétt við tökum upp. Um það hafa verið deildar meiningar og sýnist sitt hverjum. Mig langar til að lesa hér upp úr svari sem var birt á svokölluðum Evrópuvef, sem var upplýsingaveita um Evrópusambandið og Evrópumál, með leyfi forseta:

„Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum Evrópusambandsins á löggjöf í aðildarríkjunum. Niðurstöður slíkra rannsókna er hins vegar erfitt að bera saman þar sem ólíkar forsendur liggja þeim iðulega til grundvallar. Í fyrsta lagi eru áhrif ESB skilgreind á mismunandi hátt. Í flestum tilfellum er orðið aðeins notað um innleiðingu tilskipana í lög aðildarríkjanna en stundum er notuð skilgreining sem nær til hvers kyns hvatningar sem kemur frá Evrópusambandinu og leiðir til lagasetningar í aðildarríkjunum. Í öðru lagi er mismunandi hvaða löggjöf aðildarríkjanna er tekin til greiningar (frumlöggjöf, afleidd löggjöf eða hvort tveggja).“

Ég tel rétt að ítreka að hér erum við að tala um innleiðingu innan Evrópusambandsríkjanna sjálfra.

Ég vitna áfram í þetta svar:

„ Ýmsar … rannsóknir hafa verið framkvæmdar í aðildarríkjunum en þær er hins vegar erfitt að bera saman þar sem ólíkar forsendur liggja þeim iðulega til grundvallar.

Evrópusambandið setur með ýmsum hætti lög sem hafa mismunandi vægi:

Tilskipanir (e. directives) eru bindandi fyrir sérhvert aðildarríki sem þeim er beint til, að því er markmið þeirra varðar, en yfirvöldum í hverju ríki er í sjálfsvald sett á hvern hátt og með hvaða leiðum markmiðunum verður náð.

Reglugerðir (e. regulations) hafa almennt gildi, eru bindandi í heild sinni og gilda í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.

Ákvarðanir (e. decisions) eru bindandi í heild sinni fyrir þá sem þeim er beint til.“

Og ég held áfram:

„Rannsóknir á áhrifum ESB á regluverk aðildarríkjanna miðast oft einungis við innleiðingu tilskipana en ekki reglugerða eða ákvarðana. Þannig sýndi athugun á áhrifum ESB-tilskipana í Bretlandi á árunum 1987 til 1997, að 15,5%“ ESB-reglugerða og reglna og gerða, svo ég noti nú hina réttu þýðingu, sem ná til stórs flokks og eiginlega alls þess sem kemur frá Evrópusambandinu, hafa Bretar tekið upp.

Ég vitna áfram í þetta svar og gríp niður í skoðun sem var gerð í Danmörku árið 2003. Þar reyndist hlutfallið vera 14%. Í hollensku regluverki reyndist það vera 12,6%, 10,6% allra austurrískra laga og 14,1% austurrískra reglugerða.

Það hlýtur að vera einhver tilgangur með að birta þessa tölu og því langar mig að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Er þetta talnaverk þá sambærilegt því sem ég var að vitna til í þessu svari? Aðildarríki Evrópusambandsins taka nefnilega ekki upp nema hluta af þeim gerðum sem stafa frá Evrópusambandinu sjálfu. Ef það er verið að reyna að segja eitthvað með þessum tölum sem ég skil reyndar ekki hvað er dettur mér helst í hug að þetta sé einhver samanburður á áhrifum Evrópusambandsins annars vegar á Íslandi og hins vegar einhvers staðar annars staðar. Þá er eðlilegast að bera saman áhrifin sem eru innan Evrópusambandsins sjálfs og á Íslandi. Þá er niðurstaðan samkvæmt þessum tölum að við erum að innleiða eitthvert svipað hlutfall og Evrópusambandsríkin sjálf.

Er það rétt ályktun eða ekki?

Aðalatriðið er að ég átta mig ekki á því af hverju er verið að setja þetta inn í greinargerðina. Mér er eiginlega alveg lífsins ómögulegt að átta mig á því hvaða tilgangi þetta þjónar. Hvað er verið að reyna að segja? Hverjum er verið að segja þetta? Skiptir máli hvort þetta væru 5% eða 20%? Hefur hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans einhver sérstök markmið um það hver þessi hlutföll eiga að vera? Eru þá einhvers konar hættumörk? Ég skil þetta ekki alveg, hæstv. ráðherra, en ég veit að þú svarar þessu af mikilli speki. Ég efast ekki um það.