149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX., XII. og XXII. viðauka við EES-samninginn.

339. mál
[23:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari umræðu. Nú er það þannig að talsmenn Evrópusambandsins hér á landi hafa fullyrt hvað eftir annað að við tökum upp 75–90% af öllum gerðum Evrópusambandsins. Það er skjalfest í allra handa viðtölum og ræðum og hvað það nú er. Hér kemur talsmaður Evrópusambandsins á Íslandi og segir að í raun taki Evrópusambandið bara mjög lítið hlutfall af sínum eigin gerðum upp í sínum eigin löndum. Það er athyglisvert sjónarhorn og ég held að það sé rétt að hv. þingmaður drífi sig í að segja ESB-ríkjunum frá þessu. Ég fullyrði að þau hafa ekki hugmynd um þetta, ekki hugmynd.

Hv. þingmaður spyr: Hvert er markmiðið með því að upplýsa þetta? Ég segi: Markmiðið er að upplýsa um þetta út af því að ESB-sinnar eru búnir að grafa skipulega undan EES-samningnum í mjög langan tíma, ekki í mánuði, alls ekki daga, ekki vikur, ekki ár heldur í áratugi. Þeir eru búnir að grafa undan EES-samningnum með því að segja að við séum að taka upp nokkurn veginn allt sem frá ESB kemur. Þessar tölur eru opinberar, óumdeildar, ekki nýjar. Þær sýna það svart á hvítu að vegna þess að við erum eingöngu með hluta af þeim samningum sem eru í gangi — það eru bara samningarnir sem snúa að innri markaðnum — þá erum við bara að taka upp 13,4%. Það er áhugavert hvað þetta fór í taugarnar á talsmanni ESB hér á landi. Honum fannst þetta algerlega ómögulegt: Hvað eru þau að setja þessar upplýsingar þarna inn?

Vanalega er það þannig að stjórnvöld eru ásökuð um skort á upplýsingum og þá er sagt: Af hverju eruð þið ekki að upplýsa okkur? En hér er því öfugt farið: Bíddu, af hverju í ósköpunum er verið að segja frá þessu? Ég skal segja hvert markmið mitt er, virðulegi forseti, og ég segi það við hv. þingmann, talsmann Evrópusambandsins hér á landi. Það er hreint og klárt að upplýsa út á hvað EES-samningurinn gengur. Hvað þýðir það? Það þýðir að leiðrétta þarf allra handa rangfærslur sem ESB-sinnar hafa haft uppi í umræðunni í mjög langan tíma. Þetta er bara eitt af því. Menn hafa líka miskunnarlaust haldið því fram að við höfum ekkert um það sem hingað kemur að segja þrátt fyrir að allir viti, og það sé inngreypt í EES-samninginn, að við getum haft áhrif á fyrstu stigum og jafnvel þegar líður á.

Menn hafa líka haldið því fram að evran sé mikilvægasti útflutningsgjaldmiðillinn okkar, þótt allir sem það skoða viti að það er dollarinn. Ég vona bara að talsmaður Evrópusambandsins komi hingað aftur og ásaki mig fyrir að halda áfram að upplýsa þingheim og þjóð um staðreyndir mála. Ég tek gagnrýni hans fagnandi og ætla að reyna að standa undir henni alla daga, ekki bara á meðan ég er ráðherra utanríkismála heldur alla daga. Því að það sem maður er búinn að finna, sérstaklega á síðustu dögum og vikum, er að það er virkileg þörf á að koma réttum upplýsingum áleiðis.

Ég get haldið áfram. Það er jafnvel svo að talsmenn Evrópusambandsins hér á landi vilja taka af okkur viðskiptafrelsið. Þeir vilja taka viðskiptafrelsið af Íslendingum. Þeir halda því fram að það sé meira viðskiptafrelsi að vera í Evrópusambandinu. Sérstaklega ganga þingmenn Viðreisnar hart fram. Þegar ég upplýsti um að við værum með 90% tollfrelsi miðað við tollnúmerin — tollnúmer Íslands og Evrópusambandsins eru nokkurn veginn jafnmörg — í samanburði við 26% í Evrópusambandinu réðst grasrót Viðreisnar á mig. Hún kallaði mig öll lygara. Ég get fullyrt að það séu þau öll vegna þess að allir sem eru í Viðreisn eru í ráðgjafaráðinu nema einn aðili og það er hæstaréttarlögmaður, Sveinn Andri Sveinsson, og hann sagði þetta á opinberum vettvangi. Þetta eru bara staðreyndir sem liggja fyrir. Ég fann þessar upplýsingar eftir nokkrum krókaleiðum, í rýniskýrslu. Nei, það er ekki rétt, það var í annarri skýrslu sem komst ekki einu sinni í rýniskýrslu þegar við vorum í feigðarförinni um aðildarviðræður við ESB.

En ef hv. þingmaður, sem ég held að hafi ekki verið alveg skýr í málflutningi sínum og allt í góðu með það, er að vísa til þess sem ég hef verið að vekja athygli alvöru talsmanna Evrópusambandsins á — og þá er ég vísa til þeirra sem eru í Brussel — þ.e. á því að innleiðing er ekki það sama og innleiðing. Menn hafa skoðað það — og ekki íslenskir aðilar, íslenskir fræðimenn, heldur eru til bækur um það — hvernig menn innleiða gerðirnar. Það er fagnaðarefni fyrir okkur. Við tökum þátt í innri markaðnum og það eiga að vera sömu reglur fyrir alla þar inni. Það er gott. Það þýðir að íslensk fyrirtæki geta keppt á jafnréttisgrundvelli á þessum stóra markaði. En það er hins vegar þannig, og Brussel-valdið er ekki sérstaklega ánægt þegar ég tek það upp, að það hefur verið skoðað að það er stór munur á því hvernig menn innleiða. Ég held að vísu að hæstv. utanríkismálanefnd ætti að skoða það sérstaklega og ég hef tekið það upp á vettvangi EFTA og EES. Við ræddum það m.a. á fundunum í síðustu viku að þegar kemur að því að skoða hvernig þetta er innleitt eru þrjú ríki, miðað við þær rannsóknir sem ég hef séð, sem innleiða þetta að fullu eins og á að gera þetta og það eru Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Samkvæmt rannsóknaraðilum er bara sumt eins og dauður bókstafur. Það er einhvers konar innleiðing en menn fara bara ekkert eftir henni. Það eru alvarlegar fréttir fyrir okkur og við þurfum að halda áfram í hagsmunagæslu okkar að vekja athygli á því. Ef hv. þingmaður hefur verið að vísa til þess, sem mér fannst ekki alveg vera, er það gott.

Hv. þingmaður spurði: Af hverju er verið að vekja athygli á þessu? Svarið er: Það er vegna þess að það er verið að upplýsa um EES-samninginn. Það var augljós hernaðaráætlun ESB-sinna að tala niður EES-samninginn og það hefur verið gert miskunnarlaust aftur og aftur, ár eftir ár, reyndar í áratugi, til þess að menn komist að þeirri niðurstöðu eð þetta sé svo ómögulegt að það sé allt eins gott að fara bara í ESB.

Það sem er orðið svolítið sérstakt í þessu núna er að þeir sem segjast vera fylgjandi því að við stöndum utan ESB — og ég vil trúa því að það sé stærsti hlutinn — eru farnir að taka upp þennan sama málflutning. Æstustu ESB-sinnarnir og æstustu andstæðingar ESB eru farnir að nota sömu upplýsingarnar, sem eru ekki réttar upplýsingar heldur kolrangar, sem gerir það að verkum að umræðan verður mjög skrýtin.

Og, hv. þingmaður, þetta er alveg nýtt. Ég hef svo oft verið í þessum sal þar sem menn hafa bara sagt: Af hverju er verið að halda þessum hlutum leyndum? Af hverju er ekki verið upplýsa þetta? En hér kemur hv. þingmaður og segir bara: Hvað eruð þið að upplýsa þetta? Haldið þessu frá okkur!

En það er bara nokkuð sem við ætlum ekki að gera, virðulegi forseti. Við ætlum að halda áfram að upplýsa fólk og erum rétt að byrja.