149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21/2018 um breytingu á IX., XII. og XXII. viðauka við EES-samninginn.

339. mál
[23:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hversu oft ég er búinn svara þessu, ég skal gera það einu sinni enn. Svarið er einfalt. Við munum koma með allar þær upplýsingar sem við teljum mikilvægar í lögskýringargögnum sem varða viðkomandi mál.

Ég verð að viðurkenna, ég hef að vísu bara verið hérna síðan 2003, en ég man ekki eftir því að þingmaður hafi komið áður og gagnrýnt ráðherra fyrir að veita of mikið af upplýsingum. Ég bara man ekki eftir því. En einhvern tímann verður allt fyrst.

Ég fór nákvæmlega yfir, nefndi nokkur dæmi, gæti nefnt fleiri, mikilvægi þess að leiðrétta rangfærslur um EES-samninginn. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður sér einhverja ástæðu til þess að gagnrýna það. Það hljómar svolítið sérkennilega að reyna að takmarka það upplýsingaflæði og koma hér í fullri alvöru og gagnrýna ráðherrann fyrir að koma með þessar upplýsingar, sem allir sem skoða þær eru sammála um að eru réttar, í lögskýringargögnum. (JSV: Ég var að spyrja af hverju, ekkert að gagnrýna það.) Ég er búinn að svara því margoft. (JSV: Nei.) Þetta er bara mál sem skiptir þing og þjóð máli. (Gripið fram í: Í samhengi við þessa …?) Að sjálfsögðu gerir það það.

Það skiptir öllu máli, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að þeir sem taka afstöðu til mála séu meðvitaðir um EES-samninginn. Það segir sig algjörlega sjálft. Að sjálfsögðu er þetta mál sem á erindi þar. Ef hv. þingmaður er í alvöru þeirrar skoðunar að stjórnvöld eigi að upplýsa um EES-samninginn ætti hv. þingmaður frekar að gagnrýna þau fyrir að setja ekki meira inn í þessa greinargerð en einungis þetta.