149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[17:35]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég fagna því að þingsályktunartillaga um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir árin 2019–2023 sé komin fram og að við séum að ræða hana hér. Ég vil líka fagna þeim grundvallaráherslum sem birtast í stefnunni sem eru mannréttindi, með þá sýn að leiðarljósi að fátækt sé ekki aðeins skortur á efnislegum gæðum heldur einnig skortur á öryggi, valdi og stjórn yfir eigin aðstæðum. Ég fagna líka þeim áherslum sem birtast í þingsályktunartillögunni á jafnrétti kynjanna sem verði í öndvegi sem og á réttindi barna.

Svo ég haldi nú áfram fögnuðinum er að sjálfsögðu tilefni til að fagna þeim meginmarkmiðum og undirmarkmiðum sem snúast um uppbyggingu félagslegra innviða, störf í þágu friðar og svo umhverfismálin, verndun jarðarinnar og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Allt er þetta vel og nauðsynlegt að fram komi í þingsályktunartillögu um þróunarsamvinnu og stefnu okkar í þróunarsamvinnunni.

Mig langar aðeins að tæpa örlítið á nokkrum atriðum. Fyrst um loftslagsbreytingarnar. Það er gríðarlega mikilvægt að við séum með skýra stefnu og framkvæmdina líka skýra þegar kemur að því að hluti af framlögum til þróunarsamvinnu sé eyrnamerktur inn í baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Við vitum öll að loftslagsbreytingar geta stuðlað — og hafa nú þegar gert það — að auknum fjölda loftslagsflóttamanna sem munu síðan í meira mæli flýja afleiðingar loftslagsbreytinga sem kristallast í erfiðari búsetuskilyrðum og í fjölgun stríðsátaka sem eru ein af afleiðingum baráttu um auðlindir á borð við vatnsból, gras og gróðurlendi o.s.frv.

Þarna er ákaflega mikilvægt að rík þjóð eins og Ísland, og með sína reynslu þegar kemur að því að berjast gegn loftslagsbreytingunum, sem við erum alltaf að bæta okkur í, komi þarna skýrt fram og að viðtökum þetta með ákveðnum hætti inn í okkar þróunarsamvinnustefnu. En síðan er það líka baráttan gegn fátækt. Baráttan gegn fátækt er náttúrlega meginþráðurinn í heimsmarkmiðunum sem liggja hér til grundvallar líka þegar kemur að þróun þróunarsamvinnunnar. Baráttan gegn fátækt og hungri. Og síðan þessi barátta fyrir almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar.

Þetta er allt gott og ég held að þingheimur allur hljóti að geta stutt þessar áherslur. Þær eru góðar og þær munu leiða til góðs.

Ég get samt ekki látið hjá líða hér í minni ræðu að nefna þróun fjárframlaga til þróunarsamvinnunnar sem ég, og vonandi miklu fleiri, myndu vilja sjá gerast hraðar í þá átt að efna okkar skuldbindingar við að styðja markmið Sameinuðu þjóðanna sem við höfum þegar undirgengist. Það kemur fram í fjármálaáætlun sem byggist á fjármálastefnu að útgjaldavöxturinn til utanríkismála er aðallega af þrennum toga. Einn af þessum útgjaldaliðum eru framlög til opinberrar þróunarsamvinnu. Þau eiga auðvitað að hækka og það er vel. Það er gott að sjá þessa hækkun. En eins og ég segi, hækkun úr 0,26% af vergum þjóðartekjum á yfirstandandi ári í 0,35% af vergum þjóðartekjum árið 2022 finnst mér vera hæg hækkun og hefði gjarnan viljað sjá okkur ná á þessum tímum, þegar ríkissjóður Íslands stendur sem best, að bæta betur í þarna.

Það er alveg þess virði að halda því rækilega til haga að framlögin eru að hækka, þau hafa verið að hækka. En kannski þurfum við að bæta um betur.

Mig langar líka að minnast á það sem hv. þm. Logi Einarsson minntist á áðan, þ.e. þennan hluta sem fellur undir þróunarsamvinnu og notaður er í móttöku flóttamanna hingað til lands. Það er rétt að það eru mörg lönd innan DAC-nefndarinnar sem hafa flokkað þetta undir sama hatt, þ.e. móttaka kvótaflóttamanna jafnvel og flóttamanna sem framlög til þróunarsamvinnu. Þar með er ekki sagt að við þurfum endilega að fylgja þeirri þróun. Ég held að það myndi samræmast meginmarkmiðum okkar í þróunarsamvinnunni að styrkja fólk til þess að búa á sínum heimaslóðum, að fólk þurfi ekki að flýja sitt lífsviðurværi og sín heimili og að við styrkjum fólk til þess að búa og lifa mannsæmandi lífi á sínum heimaslóðum.

Við megum heldur ekki farið að grauta þessu saman, þeim fjármunum sem fara í þróunarsamvinnu og móttöku flóttamanna. Annað má heldur ekki taka við af hinu. Á meðan við erum að auka fjármuni inn í þróunarsamvinnuna má það heldur ekki búa til einhvern freistnivanda að móttaka flóttamanna fari þarna inn og það sé tekið af móttöku flóttamanna vegna þess að dómsmálaráðuneytið verður að sjálfsögðu að auka sín megin þegar kemur að móttöku flóttamanna.

Þannig að ég held að það væri ákaflega vel og til eftirbreytni ef Ísland myndi tala fyrir því í DAC-nefndinni að þetta væri ekki flokkað saman. Ég geri mér grein fyrir því að fleiri lönd hafa verið að gera það og munu halda því áfram. En ég myndi sannarlega vilja sjá utanríkisráðherra beita sér fyrir því að þetta sé í sitt hvoru lagi.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu til viðbótar. En ég held líka að það þurfi að leggja áherslu, þegar hæstv. utanríkisráðherra leggur fram þingsályktunartillögu um þróunarsamvinnuna, á framkvæmdina. Framkvæmdin verður líka að vera skýr, markviss og nýta þá reynslu sem við nú þegar búum yfir, okkar styrkleika. Ég treysti hæstv. utanríkisráðherra til þess og ég treysti líka hæstv. utanríkisráðherra og starfsfólki utanríkisþjónustunnar og utanríkisráðuneytisins, að sjálfsögðu, til að búa þannig um hnútana að framkvæmd þróunarsamvinnustefnunnar sé vel úr garði gerð — en líka ákaflega skýr. Því að dreifing fjármuna þarf náttúrlega að vera skýr. Við þurfum að vita nákvæmlega í hvaða verkefni við erum að setja peninga og að við séum með það á hreinu að þessir fjármunir gagnist vel því fólki sem við viljum aðstoða. Við vitum líka að það eru gríðarlega miklar áskoranir er varða þróunarsamvinnu. Þar koma náttúrlega loftslagsmálin inn í. Ég held að við þurfum að passa vel upp á þessa framkvæmd þróunarsamvinnunnar og nýta þá styrkleika sem við búum yfir.

Ég vil, eins og ég segi, ítreka fögnuð minn með það að þingsályktunartillagan sé komin fram og við séum loksins að ræða hana hér í þingsal. Það eru mörg mjög góð atriði þarna að finna en nokkur atriði sem kannski mætti skerpa betur á. Ég hlakka til að heyra nánar um það hjá hæstv. utanríkisráðherra.