149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[17:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum lært mikið af Norðurlöndunum og það er eitt af því sem við erum að vinna að í ráðuneytinu, einfaldlega að kortleggja það. Þau eru búin að gera þetta miklu lengur, búin að leggja miklu meira í þetta. Ég held það sé ofsalega mikið atriði í þróunarsamvinnunni að við sleppum því helst að gera mistökin sem þau gerðu því að þau eru búin að gera mörg á leiðinni.

Hv. þingmaður vísaði sérstaklega í mikilvægi þess að stefnan sé skýr og fjármagnið nýtist vel. Það er eðlileg krafa og frá báðum endum, bæði frá skattgreiðendur og líka þeim sem njóta þessa. Það er í upplegginu hjá okkur að fylgjast vel með allri framkvæmd, bæði hjá alþjóðastofnunum og líka í tvíhliða samstarfinu.

Ég held að það sé best að ræða þetta sem umhverfis- og loftslagsmál. Ég vil líka nefna Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Hann vinnur að umhverfis- og loftslagsmálum. Það fara um 730 millj. kr. í framlög árið 2018; í svæðasamstarf einnig á þessu sviði fara um 115 millj. kr., í jarðhitasamstarf árið 2018, nákvæmlega með þessari áherslu sem hv. þingmaður vísaði hér sérstaklega til.

Ég vildi líka segja, af því að mér fannst hv. þingmaður vísa í að við þyrftum að hjálpa fólki, þegar kemur að flóttafólki, að vera á sínum heimaslóðum, að auðvitað er það best, en við eigum líka að mínu áliti að líta á þetta í víðara samhengi. Þegar við tölum um þessi framlög, þ.e. hvernig við flokkum þau, þá vil ég bara að það sé samanburðarhæft á milli landa þannig að við vitum hvernig við séum að gera þetta og að förum eftir alþjóðlegum reglum.

Ég hef lagt á það áherslu sem þingmaður og sömuleiðis sem ráðherra að t.d. þróunarsjóðir EFTA, þar sem við erum að styrkja fátækustu lönd Evrópusambandsins, séu líka notaðir fyrir flóttamenn. Það er oft mjög erfitt ástand í löndum Miðjarðarhafsins, á Grikklandi, Ítalíu. Þar eru enn þá mjög stórar flóttamannabúðir þar sem fólk er búið að búa lengi. Það sér hver maður hvernig það er að þurfa að vera í slíkum búðum lengi. Við eigum að líta á þetta stóra vandamál, sem hv. (Forseti hringir.) þingmaður beinir réttilega athyglinni að, í stærra samhengi en bara undir hatti þróunarsamvinnu.