149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[17:50]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við hæstv. utanríkisráðherra séum nokkuð sammála um meginlínurnar og megininntakið í þróunarsamvinnunni. Ég sit einmitt í flóttamannanefnd Evrópuráðsþingsins og geri mér grein fyrir þeim gríðarlega miklu verkefnum sem blasa við þegar kemur að flóttafólki frá ríkjum sem þjökuð eru bæði af fátækt og átökum.

Ég held samt sem áður að fólk sem flýr þannig ástand vilji snúa heim. Auðvitað er rótin náttúrlega sú að við tölum ávallt fyrir friði og friðsamlegum lausnum og gegn stríðsátökum, að sjálfsögðu. En við verðum líka að horfast í augu við það að loftslagsmálin munu verða í mjög náinni framtíð uppspretta átaka og hafa jafnvel nú þegar orðið það. Margir sérfræðingar hafa bent á að barátta um vatnsauðlindir sé ein af meginuppsprettum borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi, og þar með ein afleiðing af loftslagsbreytingum.

Varðandi skiptingu fjármuna á milli móttöku flóttamanna hingað til lands og beinnar þróunarsamvinnuaðstoðar held ég, alla vega, og hef talað fyrir því, bæði hér í ræðum á þingi og annars staðar og mun gera það áfram, að við gerum vel við móttöku flóttamanna hingað til lands og séum ekki að grauta þessu tvennu saman. Þó svo að við séum að sjálfsögðu öll af vilja gerð og meira en það til þess að láta enn frekari fjármuni renna til móttöku flóttamanna finnst mér ekki rétt og ekki nógu mikið gagnsæi fólgið í því að við séum í aðra röndina að auka kannski hægt framlög okkar til þróunarsamvinnu og þau hafi jafnframt að geyma hækkun til framlaga hér heima. (Forseti hringir.) Ég held að við þurfum að skilja vel þarna á milli, hækka hvort tveggja, (Forseti hringir.) gera það hratt og örugglega og vonandi hraðar og meira en við höfum kannski gert hingað til eins og ég minntist á í ræðunni.