149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega og góða ræðu. Hann fór inn á ýmislegt sem vert er að ræða og skoða og flest var þess eðlis að ég klára ekki að svara því í tveggja mínútna andsvari.

Hv. þingmaður þekkir augljóslega mjög vel til á mörgum sviðum þegar kemur að þessum málum. Ég lít svo á, af því að hv. þingmaður vísaði í orð aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, að við höfum verið mjög gildandi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, held að ég megi fullyrða það. Við höfum metnað til að gera enn betur. Það er auðvitað ótrúlega stórt mál að við skyldum taka sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Þar vonast ég ekki eingöngu til þess að við getum látið gott af okkur leiða til að nálgast þau markmið sem hv. þingmaður vísaði sérstaklega til, heldur líka að við öðlumst reynslu, utanríkisþjónusta okkar, sem er nú ung og hefur ekki tekið að sér slíkt verkefni áður, þetta er æðsta verkefni sem við höfum tekið á alþjóðavettvangi, og að þetta nýtist okkur líka í framhaldinu.

Ef við getum notað stöðu okkar til að koma á friði einhvers staðar, sama í hvaða heimshluta er, hv. þingmaður vísar hér til deilu milli Ísraels og Palestínu, þá munum við að sjálfsögðu gera það og gera hvað við getum til að láta gott af okkur leiða. En það er auðvitað stórt mál. Það er mikilvægt, finnst mér, í þróunarsamvinnu, af því að hv. þingmaður kom hér víða við, að það sem við tökum að okkur gerum við vel. Við eigum ekki að vera út um allt og ná einhvern veginn aldrei árangri, við eigum að vera mjög árangursmiðuð.

Hv. þingmaður vísaði hérna í stórmál, sem er heimilisofbeldi og kynbundið ofbeldi. Það er náttúrlega ein ástæðan fyrir því að við erum að setja mannréttindamál inn í þróunarsamvinnustefnuna okkar, við viljum með því hjálpa til og koma með frumkvæði að því að hjálpa þar sem bjátar á, en við viljum líka gefa þau skilaboð til þeirra aðila (Forseti hringir.) sem við vinnum með að þetta er forgangsmál hjá okkur. Við förum fram á það að mannréttindi séu virt hjá okkar samstarfsaðilum.