149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir hans framlag. Af því að hann spurði um Afganistan þá eru áherslurnar þar á jafnréttismál, uppbyggingu og endurreisn sem er nú ekki vanþörf á.

Hv. þingmaður vísaði hér til kannski eins stærsta málsins sem er spilling. Það er auðvitað erfitt og það sem stendur virkilega uppbyggingu á ýmsum svæðum í heiminum fyrir þrifum eru hreinlega spillingarmál.

Hv. þm. Logi Már Einarsson vísaði m.a. í það að illa væri farið með auðlindir og annað slíkt og oft tengist það spillingarmálum. Auðvitað sagan líka, það má líka vísa til þess hvernig farið hefur verið með þá áður í sögunni og sneri ekki bara að þeim og alls ekki þeim sem stjórnuðu heima fyrir. Það voru fleiri aðilar sem þar komu að.

En bætt stjórnarfar er náttúrlega lykilatriði. Hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir vísaði mikið í jafnréttismálin. Það hjálpar mjög mikið ef konur taka þátt og eru virkari þátttakendur í þjóðlífinu. Því meiri áhrif þeirra þá held ég að alla jafna megi fullyrða að það hafi mjög góð áhrif. Þetta er allt saman í sömu áttina, þ.e. markmiðin hjá okkur.

Svo ég vitni aftur í hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur þá talaði hún um það sem ég veit að hv. þm. Birgir Þórarinsson er algjörlega sammála um, að það skiptir máli að vel sé farið með féð, það sé gagnsæi í þessu og við getum sagt að við fórum í ákveðið verkefni sem skilaði sér með ákveðnum hætti.

En það er talað um margt í þróunarsamvinnunni. Eitt af því er stjórnkerfið og það er hárrétt hjá hv. þingmanni því það er mjög erfitt að ná (Forseti hringir.) árangri nema stjórnkerfið sé skilvirkt og án spillingar.