149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:29]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hér var minnst á þróunarsamvinnunefnd langaði mig aðeins til að varpa ljósi á það hvað sú nefnd er. Í henni eiga sæti fulltrúar allra þingflokka hér á Alþingi, sem og fulltrúar frá ýmsum félagasamtökum og háskólastofnunum sem koma að þróunarsamvinnu með einhverjum hætti. Í nefndinni er gríðarlega mikil þekking á þróunarsamvinnu á ólíkum sviðum, í raun eftir því frá hvaða borgarasamtökum þessir aðilar koma. Mér hefur fundist það mjög jákvætt hversu brennandi áhugi er á málefninu í nefndinni, hún hefur fundað miklu oftar en hún í raun þarf lögum samkvæmt vegna þess einmitt að verið er að fara yfir skýrslur. Það er verið að fá upplýsingar um það hvernig Ísland stendur sig og um það hvaða viðmið eru sett, m.a. af DAC, þegar kemur að þróunarsamvinnu. Ég held að það sé alveg óhætt að segja, alla vega hvað þróunarsamvinnunefnd varðar, að Alþingi og hæstv. ráðherra hefur þar mjög góðan hóp fólks sem brennur (Forseti hringir.) fyrir málefninu og er þess vegna alveg gríðarlega nauðsynlegur og mikilvægur samráðsvettvangur að eiga.