149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að þetta sé algerlega rétta nálgunin sem hv. þingmaður er með. Ég er bara að hugsa upphátt og ég lít svo á að við eigum að ræða þessi mál — við erum með þróunarsamvinnunefnd, við erum með hv. utanríkismálanefnd — þá gerum við það bara með opnum hug og komumst síðan að einhverri niðurstöðu.

Ég held að einn þáttur af þessu sé, ég er alla vega á þeim stað núna, að þegar við förum í verkefni þá sé það viðráðanlegt, einnig þegar við erum að eiga við stjórnvöld. Að vísu eins og í Afríku þá erum við í tvíhliða samvinnu, þá förum við í gegnum grasrótina. Við förum ekki í gegnum stjórnvöld sem ég held að sé skynsamlegt.

Ég var að funda bæði í Argentínu og líka hér í Skagafirði með utanríkisráðherra Ekvadors sem kom hingað til lands. Við vorum að skrifa undir fríverslunarsamning við þá. Það er gríðarlegur áhugi á því að vinna með Íslandi. Maður finnur að það er áhugi á Íslandi, bæði út af ákveðinni jákvæðri ímynd sem við höfum, en líka vegna þess að við erum svo litlir. Það hefur enginn áhyggjur af því að við ætlum að gleypa þá. Það er eiginlega eingöngu lítil fyrirtæki á Íslandi, nokkur þau stærstu eru meðalstór miðað við önnur lönd. Það skiptir þetta fólk máli.

Hv. þingmaður spyr um Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Við erum að skoða þau mál, ég hef ekki nýjustu fréttir af því hvernig það gengur, annað en að ég vissi að það var mjög mikil jákvæðni frá öðrum þeim stofnunum sem við vorum að ræða við til að eiga áfram samskipti við alþjóðastofnanir.

Ég er með mjög háleitar hugmyndir um skólana. Ég held að þarna séum við með góðan grunn sem við getum byggt á og gert hann enn þá sterkari. Afríka er ein heimsálfa, Suður-Ameríka svo sannarlega önnur og Asía, þar líta menn til þeirrar sérþekkingar sem við höfum. Það er augljóslega jarðvarminn og sjávarútvegurinn en landgræðslan er algjörlega vanmetin. Við höfum náð miklu betri árangri í uppgræðslu en við áttum okkur kannski á. Við eigum að halda áfram því starfi hér heima og sjálfsögðu nýta það og miðla þeirri reynslu annað.