149. löggjafarþing — 40. fundur,  3. des. 2018.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[18:42]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Það er mjög gleðilegt að heyra að verið sé að vinna í því að halda tengslum við Sameinuðu þjóðirnar þegar kemur að þessum skólum. Þeir hafa skipt fjölmörg lönd gríðarlega miklu máli. Við gætum stækkað þessa skóla margfalt ef hægt væri vegna þess að það eru ekki bara lönd í Suður-Ameríku og Asíu sem myndu getað leitað til okkar, það eru líka lönd sem við getum kallað þó nokkuð þróaðri en sum af þessum löndum sem við höfum verið að aðstoða, jafnvel í Mið-Ameríku, hugsanlega í Ástralíu. Þar væri hægt að leggja mikið af mörkum vegna þess að það er alveg rétt sem hæstv. utanríkisráðherra segir, við höfum náð gríðarlega miklum árangri í landgræðslu ekki síður en í jarðhitamálunum.

En enn og aftur, við höfum þekkingu á fleiri sviðum. Við gætum líka nefnt ýmsa nýsköpun, t.d. í sambandi við sjávarútveg, þróa vörur sem þar eru. Síðan er einn þáttur sem líka hefur verið vanmetinn og ég reyndi að koma honum á fyrir einhverjum 15 árum milli Íslands og Ekvadors, en það er aðstoð við vöktun eldfjalla. Við höfum sérstaka þekkingu í því og gætum miðlað henni sem þróunaraðstoð líka, hvort sem það er nú í Afríku eða Suður-Ameríku eða allan hringinn meira eða minna í kringum Kyrrahafið.