149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í hv. allsherjar- og menntamálanefnd er nú til umfjöllunar frumvarp sem ég lagði fram snemma í haust sem lýtur að bættum lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Meðflutningsmenn eru úr öllum flokkum á þingi. Frumvarpið snýr að því að bæta meðferð þingsins svo hún verði ekki eins þung í vöfum, einkum þegar sakborningur er samþykkur ákvörðun lögreglustjóra um beitingu nálgunarbanns. En einnig er í frumvarpinu kveðið á um að skilgreina nánar vægari úrræði.

Um frumvarpið bárust í síðustu viku tvær umsagnir, annars vegar frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og hins vegar frá Samtökum kvenna af erlendum uppruna. Báðar umsagnirnar eru gríðarlega jákvæðar og taka undir mikilvægi þess fyrir brotaþola að létta á þessari málsmeðferð og það hversu mikilvægt er að fá skilgreind vægari úrræði áður en þessum úrræðum er beitt.

Ég vona að hv. allsherjar- og menntamálanefnd taki málið til umfjöllunar sem fyrst og okkur lánist að klára það sem fyrst, brotaþolum og öllum til hagsbóta.