149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Það er líklegast varla til það mannsbarn sem komið er til vits og ára sem ekki gerir sér grein fyrir því hve mikilvæg nýsköpun og hagnýting hugvits er, bæði í atvinnumálum og annarri samfélagsuppbyggingu. Það er ekki bara það að menntastofnanir okkar þurfi að leggja áherslu á þessi mál. Við erum á því stigi að við verðum að leggja áherslu á þessi mál í uppbyggingu menntastofnana okkar. Þar þarf nýsköpun ekki síst að eiga sér stað, enda er stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar stútfullur af fallegum orðum um nákvæmlega þessi mál. Þess vegna kemur á óvart, en þó ekki, að það er verið að draga saman, skera niður í framlögum til vísindamála. Það er verið að skera niður um á annað hundrað milljónir til rannsóknasjóðs Vísinda- og tækniráðs.

Hagræðing, segir einhver, hagræðingarkrafa, en þarna verður maður hreinlega að setja fótinn niður og gera kröfu um forgangsröðun stjórnvalda ef þau meina eitthvað í þessu máli. Þetta er samkeppnissjóður. Ég ætla að lesa upp hvernig hann veitir styrki, með leyfi forseta:

„Rannsóknasjóður veitir styrki samkvæmt almennum áherslum Vísinda- og tækniráðs og á grundvelli faglegs mats á gæðum rannsóknarverkefna, færni þeirra einstaklinga sem stunda rannsóknirnar og aðstöðu þeirra til að sinna verkefninu.“

Þetta er einfaldlega leið ungra vísindamanna inn í þetta umhverfi. Þær leiðir eru ekki margar og það er verið að skera niður nákvæmlega þar sem síst skyldi af því að það er einhver hagræðingarkrafa gerð. Ég geri þá kröfu til stjórnvalda að þau standi við stóru orðin og leggi af stað, ekki haltrandi eins og horfur eru á, jafnvel skríðandi, heldur af fullri alvöru í þá vegferð að standa við stóru orðin vegna þess að framtíð okkar er í húfi, að við sinnum unga rannsóknarfólkinu okkar og við sinnum því verkefni að búa svo um hnútana að hér verði alvörunýsköpunarsamfélag. Það mun ekki gerast ef við höldum unga vísindafólkinu okkar fyrir utan. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)