149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

tekjuskattur.

335. mál
[14:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. og framsögumanni, Ólafi Þór Gunnarssyni, fyrir framsögu hans á þessu réttlætismáli. Í rauninni get ég sagt: Ég er hálfbljúg og ótrúlega full af þakklæti fyrir þær góðu undirtektir og þann augljósa vilja sem Alþingi Íslendinga hefur sýnt gagnvart þessu máli. Því að það er í fersku minni þegar við stóðum hér í vor og mæltum fyrir þessu máli þegar þingheimur allur tók undir það að hér væri um sanngirnis- og réttlætismál að ræða. Og svo sannarlega, ef við tökum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, er okkur ekkert ómögulegt. Hugsa sér að við skulum gefa fólkinu okkar, þeim þjóðfélagshópi sem hvað höllustum fæti stendur, þessa jólagjöf, þingheimur allur.

Við erum á ákveðnum tímamótum í dag í ólgusjó þar sem við höfum átt undir undir högg að sækja og ekki hefur verið litið til okkar með mikilli hlýju síðustu daga þrátt fyrir að fæst okkar hafi nokkuð til saka unnið. En á þessum tímapunkti, þegar við getum staðið svona hnarreist fyrir framan fólkið okkar, brosað með tindrandi augum og sagt: Sjáið þið bara, sjáið hvað við getum gert ef við tökum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, þá er okkur ekkert ómögulegt. Og sjáið bara, þó að litli Flokkur fólksins sé einungis búinn að vera hér í eitt ár og þetta sé annað löggjafarþingið okkar getum við komið ýmsu til leiðar þegar við bendum á augljósu málin sem hafa kannski ekki verið svo sýnileg.

Það skiptir máli að öryrkjar eigi málsvara á Alþingi eins og allir aðrir. Það skiptir máli að hafa staðið í þessum sporum og geta sagt með sannfæringunni og með lífsreynslunni: Svona er þetta. Sjáið þið tindinn. Þarna vorum við.

Við vitum hvað við erum að segja og okkur hefur verið tekið fagnandi. Það er satt sem ég segi, við getum gert þetta og við ætlum að gera það. Við munum gera það. Skulum gera það. Gleðileg jól. Þetta er jólagjöfin frá okkur öllum til ykkar fyrir þessi jól.