149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

útflutningur hrossa.

179. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útflutning hrossa, nr. 27/2011, með síðari breytingum (gjald í stofnverndarsjóð) frá meiri hluta atvinnuveganefndar. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elísabetu Önnu Jónsdóttur frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sigurð Eyþórsson fyrir hönd Bændasamtaka Íslands, Svein Steinarsson frá Félagi hrossabænda og Gunnar Arnarson og Kristbjörgu Eyvindsdóttur. Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um útflutning hrossa sem felur í sér að gjald fyrir hvert útflutt hross hækkar úr 1.500 kr. í 3.500 kr. Einnig er lagt til að innheimtu gjaldsins verði breytt á þann veg að innheimtumaður ríkissjóðs annist innheimtu í stað Bændasamtaka Íslands.

Við umfjöllun um málið í nefndinni bárust athugasemdir um fyrirkomulagið eins og það er, m.a. um úthlutun úr sjóðnum sem og um gjaldstofninn og fjárhæð gjaldsins. Var vísað til þess t.d. að unnt væri að lækka gjaldið talsvert og á sama tíma breikka stofn þess þannig að ekki væri eingöngu greitt fyrir útflutt hross. Meiri hlutinn hvetur til þess að breytingar verði skoðaðar í samráði við þá sem starfa í greininni en mælir með því að frumvarpið verði samþykkt í því skyni að efla sjóðinn til að takast á við verkefni hans, að veita styrki til þróunar- og rannsóknarverkefna í hrossarækt.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Njáll Trausti Friðbertsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið í samræmi við heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Undir þetta rita auk þess sem hér stendur hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.

Að þessu sögðu langar mig aðeins að nefna að þegar þetta mál og það mál sem var til umfjöllunar áðan komu fyrir nefndina fannst mér þetta einhver lítil mál, bara eitthvað um íslenskukunnáttu dýralækna og svo einhverjar krónur frá hestamönnum. Í vinnslu í nefndinni vatt þetta upp á sig, sérstaklega það mál sem var hér til umræðu áðan, um íslenskukunnáttu dýralækna. Og þetta mál um hrossaútflutning er í mínum huga stærra mál en að það sé bara um einhvern 3.500 kall fyrir hest í útflutningi sem sá sem er hinum megin við hafið greiðir reyndar.

Þessi umfjöllun snýst um utanumhald okkar sem þjóðar um ræktun íslenska hestsins, við þurfum að halda vel utan um það og eins í sambandi við dýralækna. Við verðum að sýna íslenskum dýrum þá virðingu að vel sé staðið að ræktun þeirra og hefur málið fengið mjög góða umræðu í víðari mynd en þessi einangruðu mál fjalla um, bæði um menntun og annað slíkt. Þetta er vaxandi vandamál með íslenskukunnáttuna. Við fáum dýralækna að utan, sérstaklega í kringum sláturtíð, af því að þá vantar fleiri, og því fylgja samskiptaörðugleikar. Margt ungt fólk fer utan í nám og skilar sér ekki heim. Það er því stórt verkefni að við, stjórnmálamennirnir, og íslenska þjóðin hlúum að þessum málaflokkum báðum. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, það á við um þetta mál eins og allt annað sem við fjöllum hér um, sem vegur misjafnlega þungt.