149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

útflutningur hrossa.

179. mál
[15:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er kannski bara þetta. Þegar ég las frumvarpið fyrst sló þetta mig, ég hafði ekki hugmynd um að til væri svona sjóður. Þegar maður kemur hingað inn á þing og fer að lesa sig í gegnum ýmis frumvörp, ég tala nú ekki um fjárlagafrumvarpið og annað, þá eru alls konar hluti til sem maður hafði hreinlega ekki hugmynd um að væru til. Áhersla mín lýtur fyrst og fremst að því að þegar svona mál koma upp finnst mér full ástæða til að velta fyrir sér tilganginum. Hann kann að hafa verið góður og gildur í upphafi og þá þarf bara að fara yfir það. Er hann það enn þá? Er enn full ástæða til að hafa slíkan sjóð og innheimta slíkt gjald inn í sjóðinn? Þegar ég fór að nota veraldarvefinn og leita þetta uppi þá sé ég að þessi sjóður hefur stutt ýmis þörf og góð verkefni. Við höfum svolítið verið að ræða um nýsköpunarmál og mikilvægi nýsköpunar í þessum sal. Og hafandi starfað lengi í stuðningsumhverfi nýsköpunar þá hef ég ævinlega lagt áherslu á að slíkt umhverfi sé einfalt og skýrt. Okkur hættir oft til að mynda sjóði hingað og þangað og þá tekur tíma og er erfiðleikum háð að leiðbeina fólki sem ætlar mögulega að sækja í einhverja sjóði, hvert á það að fara.

Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að þetta voru svona meira vangaveltur um gildi sjóðsins og gildi svona sjóða almennt og hvort það sem við fórum í fyrir 25 árum, þegar þessi sjóður var stofnaður, sé endilega rétt. Það er alla vega verið að breyta því núna með að færa það frá Bændasamtökunum. Þá fer þetta í ríkissjóð og út úr ríkissjóði. Mér skilst að Bændasamtökin eigi enn að sjá um utanumhald ef ég skil þetta rétt. Ég árétta bara að mér finnst ástæða til að við yfirförum þetta reglulega. Það er örugglega ýmislegt sem má hreinsa til í okkar lagaumhverfi og ekki síst í okkar stuðningsumhverfi við ýmsar atvinnugreinar.