149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

ráðherraábyrgð og landsdómur.

[17:10]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Flestir þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað hafa verið þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt að endurskoða ákvæði um ráðherraábyrgð og landsdóm. Ég er ekki sammála hv. málshefjanda um að það sé í raun og veru tækifæri sem felist í því að virkja landsdóm og senda mál þeirra ráðherra sem hann taldi upp í þann farveg. Það er mín niðurstaða eftir að hafa verið hér á þingi þegar landsdómur var kallaður saman að þetta sé ekki heppilegt fyrirkomulag.

Ég tel að þau rök sem ýmsir fræðimenn hafa fært fram hvað þetta varðar sýni okkur að þetta eru gömul lög sem byggja á að mörgu leyti gömlum hefðum. Það var einungis tveimur árum áður en þessi lög voru sett sem því var breytt að dómsmálaráðherra væri til að mynda æðsti handhafi ákæruvalds, þannig að þegar þessi lög eru sett erum við í raun enn þá að stóru leyti föst í mjög gömlu kerfi. Þess vegna tek ég mark á þeim fræðimönnum sem hafa sagt að það sé eðlilegt að horfa til þeirrar þróunar sem hefur orðið í okkar réttarfari, líka þeirrar þróunar sem hefur orðið hér undanfarin ár, t.d. með heimildum til Alþingis til að setja á laggirnar rannsóknarnefndir til að fjalla um tiltekið mál, sem ég tel mjög gott skref. Ég nefni tilkomu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hefur ákveðnu hlutverki að gegna við að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Það tel ég vera nútímalegri lausnir og leiðir í því að tryggja aðhald þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ég tel hins vegar að lög um ráðherraábyrgð og landsdóm séu komin til ára sinna, eigi um margt rætur að rekja til fyrirkomulags sem er ekki lengur raunin. Ég tel líka, það er mín reynsla, hafandi verið hér á þeim tíma, að þó að lögin hafi staðist og séu enn í fullu gildi, ég geri engan ágreining við hv. þingmann um það, sé þetta ekki heppilegasta aðferðin við að þingið geti sinnt aðhaldshlutverki sínu og hægt sé að taka á því ef ráðherrar gerast brotlegir við lög. Það hafa verið nefndar ýmsar tillögur, ég vitnaði í bókarkafla Bjargar Thorarensen um þessi mál og fleiri fræðimenn hafa tjáð sig um þetta. Ég tel mjög mikilvægt að við tökum þetta til gagngerrar umræðu, bæði hvað varðar stjórnarskrá og lögin sjálf.