149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[18:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur ákvað að leggja ekki fram sérstakt nefndarálit út af þessu máli heldur koma frekar upp og gera grein fyrir skoðun sinni á málinu í nokkrum orðum. Í sjálfu sér er svo sem ekki mikið erindi í því að gera nefndarálit við hlut sem þegar er ákveðinn vegna þess að hér erum við einungis að staðfesta hug forsætisráðherra sem verður lagður fyrir forseta Íslands, samanber 15. gr. stjórnarskrárinnar, um fjölda ráðherra og verkefni þeirra. Með þessu máli er að nokkru leyti verið að vinda ofan af því sem vinstri stjórnin gerði á árunum 2009–2013. Þá voru fjórir málaflokkar sameinaðir í tvö ráðuneyti. Ráðuneyti dómsmála fór með samgöngumálum inn í innanríkisráðuneyti og sú gjörð var næstum því búin að ganga af dómsmálaráðuneytinu dauðu. Menn hættu við það sem betur fer. Síðan var sem sagt velferðarráðuneytið búið til um svipað leyti, 2011, og þetta kostaði gríðarlegt fé. Ef ég man rétt kostaði þessi gjörð á sínum tíma 600 milljónir í einskiptiskostnaði.

Það kom fram í svari við fyrirspurn sem sá sem hér stendur lagði fyrir hæstv. fjármálaráðherra, líklega á árinu 2014 eða 2015, að rekstrarlegur ávinningur af sameiningu þessara fjögurra ráðuneyta í tvö varð lítill, enginn sérstakur efnahagslegur árangur af gerðinni, þ.e. sú hagræðing sem náðist vissulega í rekstri ráðuneyta á þessum árum var vegna hagræðingarkröfu sem kom fram í kjölfar hrunsins og hafði ekkert með þetta samsull að gera sem átti ekki að kosta neitt og kostaði 600 milljónir á sínum tíma, átti að spara 300 milljónir á ári án þess að segja upp nokkrum manni. Þetta var náttúrlega málflutningur sem gekk ekki upp og menn vissu að þetta myndi aldrei ganga upp.

Múrsagir og loftpressur voru í gangi í þremur húsum í Reykjavík í mánaðavís til að koma þessu öllu heim og saman. Í sjálfu sér skil ég vel að menn skuli núna vinda ofan af þessari vitleysu, jafnvel þó að það kosti einhverja peninga.

Ég er hins vegar jafn sammála því sem nafni minn Víglundsson, hv. þingmaður, sagði áðan, það eru kjörtækifæri til að hagræða í ráðuneytunum. Það er reyndar eitt sem ég verð að viðurkenna að var vit í á sínum tíma þegar þessi gjörð varð árið 2011, í þriðju sameiningunni þegar 17 skrifstofustjórar áttu allt í einu heima í atvinnuvegaráðuneytinu án skrifstofu — í einu ráðuneyti. Það sagði sig sjálft að þarna var hagræðing mjög möguleg og var framkvæmd. Ef við tökum á sama hátt heildarfjölda skrifstofustjóra í velferðarráðuneytinu eins og það er í dag vænti ég þess að þeim muni jafnvel fækka þegar ráðuneytið smækkar, fær yfir sig tvo ráðuneytisstjóra o.s.frv. Þetta vildi ég aðeins benda á.

Síðan er annað sem fylgir þessu máli sem bendir til þess að þessi gjörð núna virðist ekki eiga sér mikla stefnu, festu né einu sinni pólitík. Hvað er gert hér? Jafnréttismálin eru færð til forsætisráðherra. Maður hefur á tilfinningunni að þá eigi félags- og jafnréttismálaráðherra að fá í staðinn einhver önnur mál. Menn velja mannvirkjamál, rífa þau upp úr umhverfisráðuneytinu og setja í barnamálaráðuneytið. Ég verð að viðurkenna, hæstv. forseti, að þessa gjörð skil ég ekki alveg vegna þess að það er nokkuð yfirlýst eða því hefur verið haldið mjög fram að í sjálfu sér sé félagsmálaráðuneytið ekkert endilega í stakk búið til að taka þennan málaflokk yfir, þar sé ekki nægjanleg þekking o.s.frv.

Það er samt annað sem ég velti fyrir mér í þessu efni. Á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar komu fulltrúar stærstu hagsmunasamtaka í mannvirkjagerð, m.a. Samtaka iðnaðarins, Verkfræðingafélagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þeir sögðu allir sömu söguna. Í fyrsta lagi er allt of skammt gengið. Af hverju eru ekki öll málin tekin, skipulagsmálin, mannvirkjamálin og úrskurðarnefnd um auðlindamál? Af hverju eru þessi mál ekki tekin öll og sett yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið? Hvers vegna í ósköpunum? Nei, þá taka menn mannvirkjamálin og henda þeim niður í barnamálaráðuneytið. Það er ekki mikil fagmennska í þessu, því miður. Mér þykir ekki mikil fagmennska heldur að hlusta ekki á þau orð sem við fengum að heyra í nefndinni frá þeim fagaðilum og hagsmunaaðilum sem sögðu: Þessi gjörð núna verður ekki til þess að einfalda málin eins og menn halda fram að sé sem sagt stóri útgangspunkturinn í þessari framkvæmd. Málefni sem varða byggingar, skipulag og annað verða eftir sem áður í þremur ráðuneytum og það er ekki endilega mjög skilvirkt, hæstv. forseti.

Í hvert skipti sem einhver „stefnubreyting“ á að verða hjá einstökum ríkisstjórnum skipta menn um nöfn á ráðuneytum sem í sjálfu sér kostar töluvert fé. Þá þarf að breyta öllu pappírsfargani ráðuneytanna, þ.e. bréfsefni, umslögum o.s.frv. Það þarf að breyta þessu öllu í hvert skipti. Félagsmálaráðuneytið hefur heitið meðan ég man, mjög skammt aftur í tímann, félags- og húsnæðismálaráðuneyti, félags- og jafnréttisráðuneyti og nú heitir það félags- og barnarmálaráðuneyti. Hvað myndi gerast ef við fengjum umhverfisráðherra sem hefði sérstakan áhuga á úrgangsmálum? Fengjum við þá umhverfis- og úrgangsmálaráðuneytið? Mér finnst þetta orðaleppalegt. Við þurfum þetta ekki. Félagsmálaráðuneytið getur alveg heitið félagsmálaráðuneyti bara eitt og sér og það þarf ekki að skreyta það með einhverjum sérstökum áhersluatriðum eða áhugamálum þeirrar ríkisstjórnar sem situr á hverjum tíma. Það er ríkisstjórnarinnar sjálfrar að sýna áhugann og áræðið í verkum sínum en ekki með einhverjum nafngiftum sem skipta engu máli.

Ég skil í sjálfu sér mótífið, að menn skuli vera að vinda ofan af þeirri dellu sem var gerð á dögum vinstri stjórnarinnar, þeirri sem kostaði haug af fé og sparaði lítið, ef eitthvað, og ég vænti þess að þessi breyting hafi í för með sér einhvern sýnilegan ábata, ef ekki fjárhagslegan, þá faglegan. Eins og ég segi aftur veit ég ekki til hvers það er að setja mannvirkjamálin yfir í barnamálaráðuneytið án þess að færa eitthvað annað með.

Menn segja að það sé verið að gera þetta út af félagslega húsnæðinu. Jú, það heyrir undir félagsmálaráðherra en eins og ég segi aftur: Hagsmunaaðilar segja: Skipulagsmálin þurfa að fylgja þessu, þ.e. Skipulagsstofnun, og úrskurðarnefndin til að þetta verði skilvirkt og einfalt. Ef þetta á að verða skilvirkt og einfalt fyrir þá sem vinna eftir þessum lögum og undir þessum stofnunum og þurfa til þeirra að sækja þarf að gera þetta svona. En menn höfðu annaðhvort ekki kjark í það eða ekki tíma til þess eða eitthvað og þá er þessu flaustrað út núna.

Ég held svei mér þá, og ég viðraði það í nefndinni á sínum tíma, að það hefði jafnvel verið skárra að geyma þessa framkvæmd aðeins og fara þá í heildarfærslu á allri mannvirkjagerð yfir til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þar sem hefði orðið virkileg samlegð og um leið betri þjónusta við þá sem þurfa að nota. En, nei, nei, menn taka bara jafnréttismálin af félagsmálaráðherra og rétta honum Mannvirkjastofnun í staðinn sem einhverja dúsu. Þetta er ekki góð stjórnsýsla, hæstv. forseti. Þetta er engin sérstök stefna og þetta er engin pólitík. Þetta er ekkert sem bendir til þess að menn vilji virkilega gera umbætur.

Á bls. 2 í nefndaráliti meiri hlutans er náttúrlega týpískt fyrir meiri hluta sem vill ekki styggja ráðherrana sína. Hér segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur að líta mætti til þess hvernig fyrirkomulagið er annars staðar á Norðurlöndum.“

Það er akkúrat það sem fagaðilarnir bentu á. Þeir bentu á hvernig þetta væri í Danmörku og Svíþjóð, skipulagsmál og húsnæðismál hjá sama ráðherra, samlegðaráhrif og samspil. En, nei, menn ákveða að gera þetta. Ég segi aftur, hæstv. forseti: Þetta er ekki faglegt. Það er engin stefna í þessu. Það er engin pólitík í þessu.

Það er svo sem ekkert nýtt með þessa ríkisstjórn sem er mynduð af tveimur andstæðum pólum með eitt hjálpardekk með sér. Það er ekkert skrýtið að svona ráðstöfun sé gerð.

Ég velti hins vegar fyrir mér hvort við getum átt von á því að það muni gerast á næstu árum að ríkisstjórnir sem myndaðar eru, vonandi um einhver hugsjónamál, en ég óttast að það verði eins og með þessa, að þær verði myndaðar um fjölda ráðherrastóla og þá fáum við einhverja stjórnskipulega bastarða. Þá skipta menn upp ráðuneytum þangað til nauðsynlegur fjöldi ráðherra er kominn fram. Það hefur ekkert með faglegheit eða pólitík eða neitt annað að gera en bara fjölda ráðherrastólanna. Þetta er ekki góð þróun.

Mér finnst ámælisvert að menn skuli ekki taka ráðum og rökum þeirra sem mest þurfa á þjónustunni að halda og þurfa virkilega á því að halda að á einum stað verði til fagleg stjórnunarleg eining sem haldi utan um þennan mikilvæga málaflokk sem skipulags-, mannvirkja- og húsnæðismál heyra til, að þetta heyri til einum ráðherra. Hvar annars staðar ætti þetta í sjálfu sér að vera en hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þar sem sveitarfélögin hafa skipulagsvaldið? Sveitarfélögin eru eiginlega aðaláhrifavaldar í því að skipuleggja nýjar byggingar og ný byggingarsvæði. Hvers vegna stíga menn ekki það skref með þessi góðu ráð undir höndum í staðinn fyrir að flaustra með þessum hætti eins og hér er gert?

Það er af þessari ástæðu, hæstv. forseti, sem sá sem hér stendur ákvað að leggja ekki fram sérstakt nefndarálit. Eins og ég segi stöndum við frammi fyrir gerðri ákvörðun. Það skiptir í sjálfu sér engu máli hvort meiri hluti og minni hluti hafi einhverjar sérstakar skoðanir á þessu máli. Það fer svona í gegn, því miður, fyrst meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði ekki þau áhrif, þau völd eða þann kjark sem var nauðsynlegur til að breyta málinu í meðförum nefndarinnar. Það hefði staðið upp á þann meiri hluta en ekki minni hlutann sem annars vegar kemur fram með 1. minnihlutaálit og hins vegar það álit sem kemur fram í ræðu þess sem hér stendur nú. Auðvitað hefði staðið upp á meiri hluta þeirrar hv. nefndar að gera nauðsynlegar breytingar á málinu til að það yrði betra og til einhverrar gæfu.

Ég segi aftur að ég skil í sjálfu sér mótífið. Ég skil að menn skuli vilja víkja af þeim vegi sem vinstri stjórnin sáluga var með hér á árunum 2009–2013, reyndar þjökuð af peningaleysi og þá brugðu menn náttúrlega á það ráð að henda þessum ráðuneytum saman með ærnum kostnaði og engum sparnaði, en menn tóku viljann fyrir verkið. Menn héldu að þeir væru að gera eitthvað gott en svo var ekki. Að því leyti til skil ég að velferðarráðuneytinu skuli vera skipt upp að nýju.

Ég ítreka þó, hæstv. forseti, að þetta er ekki gert á faglegum forsendum. Þetta er ekki gert á forsendum þess að fara vel með ríkisfé. Þetta er ekki gert á þeim forsendum sem varða stefnumál yfirleitt eða pólitík. Þetta er gert tilviljanakennt í tilraunaskyni og ég spái því að innan eins til tveggja ára fáum við nýja þingsályktunartillögu þar sem við verðum beðin að staðfesta einhverja aðra skipun á ráðherraembættum, náttúrlega ekki síðar en við næstu kosningar þegar menn þurfa að fara að skáka sínu fólki á garðann. En það hefur ekkert með pólitík að gera, það hefur ekkert með faglegheit að gera og það hefur ekkert með fjárhagslegt skipulag að gera. Það er mjög miður, hæstv. forseti.