149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019--2023.

403. mál
[19:19]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir ágætar spurningar. Það er rétt að um leið og við erum að byggja upp þessar rafrænu gagnaþjónustur þá opnast allt í einu ný ógn, ný tegund af glæpum, sem við erum því miður stöðugt minnt og ég held að mjög mörg fyrirtæki á Íslandi verði fyrir á degi hverjum. Þess vegna er mjög mikilvægt að við séum með öflugt öryggiskerfi og allan þann viðbúnað sem við framast getum. Í stærri löndum setja menn jafnvel á laggirnar fleiri hundruð manna flokka til þess. Það sem við stefnum að er innleiðing á svokallaðri NIS-tilskipun, sem er frumvarp sem þegar hefur verið dreift á Alþingi og ég vona að ég geti mælt fyrir á næstu dögum, í næstu viku í síðasta lagi. Þar er tekið á þeim þætti á talsvert öflugan hátt með því annars vegar að efla öryggissveitina, CERT-ÍS, og allan viðbúnað og tækjabúnað. Þegar við höfum lokið umfjöllun í þinginu og í nefndum þingsins um málið og það tekur gildi, sem verður reyndar ekki fyrr en á árinu 2020 ef ég man rétt, þá munum við smátt og smátt innleiða meiri varnir, meiri eflingu þess að vera stöðugt á vakt og vera viðbúin því versta og undirbúa okkur eins og hægt er. Lykilatriði í því sambandi er reyndar samvinna og samstarf við aðrar þjóðir. Við eigum umtalsvert og mjög gott samstarf við Norðurlandaþjóðirnar ekki síst, en einnig erum við sem ein þjóð NATO eðlilega í talsverðum samskiptum (Forseti hringir.) við þá aðila, því að þeir líta auðvitað á þessa nýju ógn sem nýtt tæki til stríðsátaka.