149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[17:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Staðan er grafalvarleg. Síðastliðinn áratug eða svo hefur verið um það rætt að svo kunni að vera að Íslandspóstur sé að nýta það fé sem íslenska ríkið leggur til vegna alþjónustu inn í samkeppnisrekstur. Í morgun kom Félag atvinnurekenda fram og sagði að það væri full ástæða til þess að skoða þetta og rannsaka gaumgæfilega af því að það er skýrt brot á samkeppnislögum. Þetta er ekki bara skýrt brot á samkeppnislögum heldur erum við í vandræðum í Evrópu, ef upp um þetta kemst. Það er einmitt það sem ég hef áhyggjur af, ég hef áhyggjur af ESA og það mun líka kosta okkur töluverða peninga.

Það kemur fram í greinargerðinni að nefndin hafi fengið staðfestingu á að lánveiting ríkisins á markaðsvöxtum til Íslandspósts stangist ekki á við ríkisaðstoðarreglur sem ESA hefur eftirlit með. Þá spyr ég: Var þeim sem spurður var um ESA gerð grein fyrir því að umrætt lán fæst ólíklega endurgreitt og er þess vegna styrkur? Sömuleiðis að fjármagnið kunni að vera nýtt í samkeppnisrekstur þessa ríkishlutafélags að einhverju leyti eins og við fáum fréttir af?