149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég tók það sérstaklega fram að ég tel ekki að þau skilyrði sem eru sett upp þarna séu einhver skilyrði umfram það sem nauðsynlega þyrfti hvort eð er að grípa til, til þess einfaldlega að stunda ábyrga stjórn á fyrirtækinu. Án aðkomu fjárlaganefndar myndi þetta hvort sem er vera gert. Það er það sem ég á við með að í rauninni séu ekki sett nein skilyrði fyrir aukaaðkomu ríkisins upp á 1,5 milljarða.

Póstþjónustan er vissulega gríðarlega mikilvæg þjónusta sem hefur verið að þróast, af því að fleiri möguleikar hafa bæst við til að koma skilaboðum á milli fólks, en segja má að hún að sé fyrsti vísirinn að internetinu þar sem hægt er að senda skilaboð á milli manna. Síðan hefur komið tækni sem gerir það miklu skilvirkara, hraðvirkara og hægt að senda miklu meira magn á miklu styttri tíma. Það eru kannski vandamál með pakkasendingarnar en bréfasendingar eru að deyja drottni sínum af því að það er annað sem tekur við.