149. löggjafarþing — 42. fundur,  5. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:11]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé sammála mér um það að við stöndum á ákveðnum tímamótum í sögunni á Íslandi varðandi efnahagsmál. Við höfum verið með á sjö, átta ára fresti skarpar niðurdýfur og komið krepputímar. Nú hafa forsendur breyst svolítið. Efnahagslíf hefur breyst mikið og allt okkar umhverfi varðandi efnahagsmálin. Við erum á sjöunda ári núna í jákvæðri hagsveiflu, enn þá með viðskiptajöfnuð. Eins og þróunin hefur verið undanfarið þá virðist hún sveiflast aðeins, en sá viðskiptajöfnuður mun væntanlega haldast ef svipað gengi og er núna mun haldast og ef olíuverð verður á svipuðum nótum og það er komið í núna. Það eru náttúrlega alltaf þessar skörpu breytingar sem hafa alltaf verið okkur mikilvægar, hvert olíuverðið er og slíkir þættir. Ég vil spyrja hv. þingmann um þessa ákveðnu sýn á efnahagslífið vegna þess að mér finnst oft koma fram í máli hans svolítið svört mynd af því hvert stefni og er þá verið að vísa í gamla tíma, hvort hann sé jafn neikvæður gagnvart því að við séum að fá svona kreppur eins og 1969, olíukreppuna 1974, 1978 og svo 1991–1995. Hvernig lítur hann á framtíðina almennt? Mér finnst hún stundum svolítið svört hjá honum.

Við höfum farið í gríðarlegan útgjaldavöxt á síðustu árum og ég er sammála þingmanninum um það. Við erum að stefna í 33 milljarða kr., sem er þó töluvert minna en hefur verið síðustu tvö ár í fjárlögum ríkisins. Í fyrra voru það rúmir 50 milljarðar. Þá var nú hv. þingmaður í þeirri ríkisstjórn sem lagði raunar drögin að þeim fjárlögum sem við samþykktum í fyrra, síðastliðið haust. Það varð ekki mikil breyting á því sem sú ríkisstjórn hafði lagt fram með. Þar á undan, eftir kosningar 2016, voru þetta líka 50 milljarðar.

Svo vil ég bara rétt í lokin spyrja um það sem hv. þingmaður kom inn á varðandi (Forseti hringir.) vöxt ríkisútgjalda 1991–2009, hvort hann hafi sagt að það hefði verið 33% raunvöxtun á þessu tímabili. Ég bara missti af tölunni.