149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[11:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Ég er pínulítið hlessa eftir síðustu ræðu hér. Þar er af mörgu að taka. Þessi fjárlög og fjármálaáætlunin sem þau byggja á eru einu orði sagt, miðað við lög um opinber fjármál, stefnulaus. Það er engin kostnaðaráætlun. Markmiðin eru mjög óskýr og ofan á þetta byggjum við fjárúthlutanir sem við vitum í rauninni ekki hvaða árangri við munum ná með.

Í umhverfismálin er vissulega verið að setja metfjárhæð en verkefnið er líka gríðarlega mikið. Talað hefur verið um það á fundum umhverfis- og samgöngunefndar og fjárlaganefndar að við sjáum fram á 12–20 milljarða kr. kostnað vegna kaupa á kolefniskvótum í náinni framtíð vegna þess að við náum ekki að standast alþjóðlegar skuldbindingar okkar. Það er á einu ári. Á sama tíma leggjum við fram 6 milljarða á fimm ára áætlun fjármálaáætlunar. Það er vonandi að þeir 6 milljarðar nái að koma okkur á þann stað að við þurfum ekki að kaupa kolefniskvóta eins og stefnir í. Það er ekkert sem bendir til þess. Sérfræðingar segja að það sé ekkert sem bendi til þess að við náum að standast skuldbindingar okkar og þar af leiðandi þurfum við að standa straum af þeim kostnaði. Ég velti fyrir mér hvort ekki væri mjög augljóst að segja að við tækjum þarna góð skref í umhverfismálum, en það eru samt langt því frá nægilega stór skref, langt því frá miðað við þær framtíðarhorfur sem blasa við okkur.

Um velferðarmálin er einnig margt hægt að segja. Þar hafa flogið ýmsar upphæðir og talað um met o.s.frv., en það eru nokkrar athugasemdir sem gera verður þar við. Komið hefur fram í skýrslu ASÍ t.d. að skattbyrði hafi aukist gríðarlega á þá lægst launuðu á undanförnum áratugum. Þar hefur kaupmáttaraukning oft komið upp á borðið, en hún dreifist mismunandi á milli tekjuhópa. Í þeim tekjuhópum þar sem leigjendur eru, þar sem leigukostnaður hefur aukist um nær 100%, kannski tvöfaldast síðan 2011, étur sú hækkun upp allan kaupmátt þess hóps, ef ekki gott betur. Eins og á mörgum öðrum sviðum vantar betri tölur þar um til þess að við séum betur upplýst um hvað er í raun og veru verið að gera.

Það er alltaf talað um að það sé svo mikil kaupmáttaraukning almennt séð. Það er engin greining niður á það hvar kaupmáttaraukningin kemur fram. Maður myndi halda að þar væri einhver spéhræðsla í gangi varðandi hvernig það leggst niður. Því að ef kaupmáttaraukningin er sú sama fyrir lægstu tekjuhópana og fyrir hæstu tekjuhópana eru það miklu færri krónur. Hækkun á leiguverði húsnæðisverðs er á háa tölu. Það eru miklu fleiri krónur. Dæmið er mjög augljóst.

Í umræðunni um fjárlög hefur verið talað um 69. gr. laga um almannatryggingar, en þar segir að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Lögin tóku gildi 1997 og svo í kjölfarið, frá 1998, hefur þetta gerst sjö sinnum. Sjö sinnum hafa bætur almannatrygginga hækkað minna en vísitala neysluverðs þess árs. Fimm sinnum — einungis fimm sinnum á þessum 20 árum hafa bætur almannatrygginga hækkað meira en bæði launaþróun og vísitala neysluverðs. Mismunurinn sem þarna virðist vera samkvæmt grófum útreikningi — það væri gott að fá opinbera staðfestingu á því og nánari útreikninga, en þetta eru svona grófir útreikningar — segir okkur að það muni u.þ.b. 50% á þeirri upphæð sem bætur til almannatrygginga voru fyrir tveimur áratugum og þeirri sem er núna. Bæturnar þyrftu að vera 50% hærri núna til að vera samkvæmt lögum 69. gr. almannatrygginga, 50% hærri. Það segir sitt.

Ofan í fjárlögin og ofan í kosningabaráttu undanfarinna tveggja ára kemur sífellt betur í ljós að við erum eftir á á mjög mörgum sviðum eftir hrunið. Fjárlögin bera þess klárlega merki. Það þarf að auka í úti um allt af því að við hertum sultarólina í hruninu og slepptum alveg gríðarlega mörgum verkefnum. Þau verkefni eru að koma í hausinn á okkur núna í ákveðinni innviðaskuld, t.d. í samgöngukerfinu er hún upp á 60–70 milljarða. Það kostar okkur fé að vera með þá skuld. Við erum að greiða upp peningalegar skuldir alveg á methraða, enda sjáum við þar skýrt og greinilega hvaða vaxtakostnaði við náum til baka. Við sjáum það ekki í þeirri innviðaskuld sem við erum með. Þess vegna tel ég að við leggjum ekki eins mikla áherslu á þá skuld og við ættum að vera að gera því að sú skuld er þung byrði.

Að lokum myndi ég vilja tala aðeins um fjárlögin almennt. Við erum í fyrsta sinn með ríkisstjórn sem er með fjármálastefnu, fjármálaáætlun og fjárlög í beinu framhaldi. Gagnsæi þessa fjárlagafrumvarps er bókstaflega ekki neitt. Það kemur manni sífellt á óvart að heyra hvernig ýmsar útfærslur á tölum í fjárlögunum eru síðan túlkaðar í ráðuneytunum, síðast varðandi Rannsóknasjóðinn, sem blessunarlega er búið að lagfæra núna þannig að fjárheimildirnar þar eru skýrar. En við höfum lent í því að þurfa að heyra um það frá þriðja aðila hvað upphæðirnar í fjárlagafrumvarpinu þýða í raun, það kemur ekki augljóslega fram í fjárlögunum sjálfum eða í fylgiriti fjárlaga. Við vitum ekki hvaða tölurnar þýða sem eru í fjárlagafrumvarpinu þegar allt kemur til alls.

Ég spyr bara þeirrar einföldu spurningar: Af hverju ætti Alþingi að samþykkja fjárlög þegar við vitum ekki hvað tölurnar þýða?