149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:43]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Sóknin í þessum fjárlögum beinist að fátækasta fólki á Íslandi sem er í nauðvörn. Besta staða ríkissjóðs nokkurn tíma dugar ekki til þess að leiðrétta kjör öryrkja eða eldri borgara. Besta staða ríkissjóðs felst hins vegar í því að aflétta gjöldum og sköttum af fjármálafyrirtækjum þannig að eigendur þeirra og stjórnendur eiga gleðileg jól, sem er ágætt, í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, en fátækasta fólkið á Íslandi þarf að bíða réttlætis enn um sinn — í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.

Allar þær tillögur sem Miðflokkurinn lagði fram við 2. umr., skynsamlegar, fullfjármagnaðar og réttlátar, voru felldar, sumar við nafnakall. Menn guldu jáyrði við því að svíkja öryrkja og menn guldu jáyrði við því að koma í veg fyrir að aldraðir geti unnið sér inn aukagetu án þess að vera skattaðir fyrir það.

Þetta er það sem þessir hópar fara með inn í jólin í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.