149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[13:46]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þessi fjárlög opinbera í senn efnahagslegt ábyrgðarleysi þessarar ríkisstjórnar og þá sérhagsmunagæslu sem hún stendur fyrir. Hér er vissulega ráðist í töluvert mikla útgjaldaaukningu á sama tíma og Seðlabanki hækkar vexti til að slást við verðbólgu. Enn eina ferðina skilar ríkisstjórnin minna en auðu í hagstjórninni, leggur verðbólgunni beinlínis lið, leggst gegn Seðlabankanum í baráttu sinni fyrir öflugri peningastefnu, lægri verðbólgu og lægra vaxtastigi í landinu.

Það er óumdeilt og hefur ítrekað verið bent á í allri umfjöllun í fjárlagavinnunni í aðdraganda þessara fjárlaga ríkisstjórnarinnar.

Í öðru lagi er alveg augljóst að verið er að lækka veiðigjöld um fleiri milljarða á sama tíma og ekki er hægt að færa eldri borgurum eða örorkulífeyrisþegum neina kaupmáttaraukningu á næsta ári, ekki er hægt að standa við áform um uppbyggingu hjúkrunarrýma og svo mætti áfram telja. (Forseti hringir.) Niðurskurðarhnífinn ber niður í velferðarkerfinu. Þar opinberar ríkisstjórnin sérhagsmunagæslu sína. Þessi fjárlög er ekki hægt að styðja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)