149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:24]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Öryrkjabandalag Íslands sendi í gær frá sér tilkynningu er innihélt svar forsætisráðuneytisins til þess vegna skerðingar á framlagi til öryrkja milli umræðna á þingi. Fram kemur að forsætisráðuneytið kannast ekki við að kjör öryrkja hafa verið bætt um 9 milljarða kr. þvert á fullyrðingar hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur. Ráðuneytið segir í svari til Öryrkjabandalags Íslands að kjarabætur nemi um 400 millj. kr. í ár og að 2,9 milljarða framlagi til kerfisbreytinga verði varið til að bæta kjör öryrkja. Hvernig sem á málið er litið er þó ljóst að fullyrðing forsætisráðherra um 9 milljarða kr. framlög til að bæta kjör öryrkja stenst enga skoðun.

Svona hljómar tilkynningin frá Öryrkjabandalaginu. Við í Samfylkingunni leggjum til 1 milljarð í viðbót til öryrkja og við vonum að þingheimur veiti nú öryrkjum þessa jólagjöf í ár.