149. löggjafarþing — 43. fundur,  7. des. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[14:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Þessi tillaga er samhljóða þeirri sem ég gerði grein fyrir atkvæði mínu gagnvart hér fyrir skömmu, nema hún snýr að ellilífeyrisþegum. Þar er gert ráð fyrir 3,6% hækkun viðmiðunarfjárhæðar á næsta ári, sömu prósentutölu og gert er ráð fyrir í verðbólgu í efnahagslegum forsendum fjárlaga. Það er alveg ljóst þegar horft er á efnahagslegar forsendur þessara fjárlaga að það er hætta á því að verðbólgan geti orðið meiri, miðað við núverandi stöðu á gengi krónunnar í það minnsta, auk þess sem verðbólga þessa árs virðist þegar stefna í að verða talsvert meiri en ráð var fyrir gert í þeim sömu forsendum.

Ég tel þetta því lágmarkshækkun þessara viðmiðunarfjárhæða, að tryggja þessum viðkvæma hópi 1% kaupmáttaraukningu og koma í veg fyrir að hann dragist aftur úr öðrum þjóðfélagshópum.

Ég segi já.